fb40x40 unionjack

logona314

logona314
  • Fréttir

Heiðagæsirnar spóka sig nú í Bretlandi

KristínÍ lok júlí sl. setti Náttúrustofa Austurlands í samvinnu við Verkís og WWT (Wildfowl and Wetland Trust) GPS senditæki á fimm heiðagæsir í sárum á Vesturöræfum. Megin tilgangurinn var að skrásetja ferðir og landnýtingu gæsanna með nákvæmari hætti en áður hefur verið gert. Þær senda nú frá sér upplýsingar um staðsetningu daglega.
Gæsirnar fimm voru allt kvenfuglar sem fengu nöfnin; Kristín, Rán, Áslaug, Guðrún og Erlín/Elín. Eftir að þær urðu aftur fleygar var hægt að fylgjast með þeim yfirgefa merkingasvæðið fyrir utan Rán sem hætti að senda merki frá sér í byrjun ágúst. Gæsirnar fjórar sem sendu frá sér staðsetningar yfirgáfu Ísland um miðjan september og dvelja nú á vetrarstöðvunum á Bretlandseyjum. Lengi vel var óttast að Rán hefði drepist skömmu eftir merkingu en svo bárust þær gleðifréttir frá vinum okkar í Bretlandi að hún hefði sést hress og kát þann 29. október við Lytham Ross. Þær Kristín og Guðrún halda sig í nágrenni við Liverpool en Áslaug og Erlín/Elín eru í Skotlandi við Dundee og Aberdeen.


Nú er hægt að fylgjast með gæsunum á meðfylgjandi vefslóð og vonandi lifa þær veturinn af og skila sér á varpslóðir vorið 2018. Þar er m.a. hægt að sjá að Áslaug fór fyrst af stað yfir hafið, en hún lagið af stað austan Þrándarjökuls snemma dags þann 14. september og var komið til Skotlands um kvöldið. Kristín var austan Snæfells þegar hún ákvað að fara af landi brott að kvöldi 14. september. Hún var svo lent snemma morguns þann 15. september í Skotlandi. Guðrún fór fyrst suður að Höfn áður en hún flaug yfir hafið en Erlín/Elín fór hinsvegar úr Fljótsdalsheiðinni beint til vetrarstöðvanna á Bretlandseyjum.
http://gps.verkis.is/heidagaes17/
Af tæknilegum ástæðum hefur hluti staðsetninga gæsanna fallið út en unnið er að lagfæringum.

Rán  Áslaug   

Guðrún  Elín/Erlín

Náttúrufræðileg úttekt á Skúmey

skumeyNú í sumar tók Náttúrustofa Austurlands þátt í fjórum leiðöngrum í Skúmey á Breiðamerkurlóni undir stjórn Náttúrustofu Suðausturlands auk fulltrúa frá Vatnajökulsþjóðgarði og Fuglaathugunarstöðvarinnar á Suðausturlandi. Tilgangurinn var náttúrufræðileg úttekt á eynni en ekki hvað síst að slá tölu á helsingjahreiður en stórt helsingjavarp var í Skúmey í vor. Hlutverk Náttúrustofu Austurlands var að koma þar af stað gróðurvöktun. Í fyrstu ferðinni í lok maí voru fjórir 100 fermetra reitir afmarkaðir og þeir síðan heimsóttir aftur mánuði síðar, þá var gróður greindur og þekjumældur. Í lok júlí var síðan haldið í þriðju ferðina, mikil breyting hafði orðið á milli mánaða og þá mátti sjá plöntutegundir sem ekki höfðu sést í fyrri ferðum, líklega vegna beitar í júní. Þann 1. september var síðan haldið í fjórðu og síðustu ferðina þetta árið, þá var farið yfir reitina og fyrri úttektir staðfestar.

Gróðurvöktunarreitir heimsóttir

Nýverið fór starfsmaður Náttúrustofunnar með Sigurði H. Magnússyni hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í rannsóknarleiðangur um Úthérað. Þar eru gróðurvöktunarreitir sem Náttúrufræðistofnun setti út og hefur vaktað frá árinu 2006. Tilgangur vöktunarinnar er að kanna áhrif vatnsborðsbreytinga í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti vegna Kárahnjúkavirkjunar á gróður. Núna í ágúst voru allir reitirnir heimsóttir og sams konar úttekt og í byrjun vöktunarinnar framkvæmd.

 

 

  

Helsingjanef ( Lepas sp)

2017 helsingjanef duflStarfsmenn Náttúrustofu Austurlands fengu sendar myndir af helsingjanefjum (Lepas sp) sem voru föst neðan á dufli en það hafði rekið á land í Húsavík sem er milli Loðmundafjarðar og Borgarfjarðar Eystri. Duflið losnaði upp 370 sjómílur austur af Charleston í Suður Karolínu í mars árið 2016 og er hluti af DART (Deep-ocean Assessment and Reporting of Tsunamis) rannsóknarduflaneti NOAA sem rannsakar skjálftaflóðbylgjur.
Helsingjanef eru krabbadýr sem tilheyra ættbálki skelskúfa (Cirripedia) og eru skyldir hrúðurkörlum sem algengir eru í fjörum landsins. Þessi sérkennilegu krabbadýr lifa ekki við strendur Íslands en rekur oft hingað með ýmsum hlutum sem þeir hafa fest sig við með löngum vöðvafestum. Fyrr á öldum voru helsingjar og margæsir taldir koma úr helsingjanefjum því þessir fuglar birtust allt í einu að vori og hurfu jafn snögglega og sáust ekki aftur fyrr en að hausti. Sennilega hefur rekaviður með helsingjanefjum fundist um svipað leyti og fuglarnir sáust og fólk talið að þarna væri skýringin af þessum dularfullu fuglum en helsingjnef þykja líkjast nefi þessara fugla.
Þeir sem vilja fræðast meira um duflið þá er heimasíða þess http://www.ndbc.noaa.gov/station_page.php?station=41424 og hægt er að fræðast meira um rannsóknaverkefnið á þessari slóð http://www.ndbc.noaa.gov/dart.shtml.

2017 helsingjanef  2017 22396498 10210700195163124 80074313 o

Heimild.
Finnur Guðmundsson og Agnar Ingólfsson (1968). Helsingjanef á Surtseyjarvikri. Náttúrufræðingurinn 37, (3.-4.), 222-226.

Samnorrænt verkefni um smitsjúkdóma

Náttúrustofan tekur nú þátt í stóru norrænu verkefni um smitsjúkdóma og heilbrigði hreindýra á norðurslóðum, einkum í ljósi hnatthlýnunar. Arctic University of Norway leiðir verkefnið en auk þeirra taka Norwegian Veterinary Institute, Norwegian Institute of Nature Research og Northern Research Institute þátt í því. Það tengist líka verkefni (Climate-change effects on the epidemiology of infectious diseases and the impacts on Northern Societies ) við Umeå University.

Morten Tryland leiðir vinnuna hér á landi sem einungis er möguleg í góðu samstarfi við leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Þau munu kynna verkefnið og helstu smitsjúkdóma fyrir stjórn leiðsögumanna með hreindýraveiðum og fleirum áður en þau hverfa suður á bóginn. Ráðgert er að endurtaka leikinn að hausti.

Auk þessa safnar Náttúrustofan heilasýnum fyrir MAST en amerísk hjartarriða (Cronic Wasting Disease) fannst í fyrsta sinn í Evrópu í norskri hreindýrahjörð í vetur.

Náttúrustofan þakkar öllum kærlega sem lagt hafa okkur lið en niðurstöðurnar munu auka mjög á þekkingu okkar á heilbrigði íslensku dýranna

 

Gæsamerkingar

Dagana 18.-21.7. og 24.-28.7.2017 stóð Náttúrustofan ásamt Verkís og WWT í Bretlandi fyrir gæsamerkingum á Norður-, Austur- og Suðausturlandi. Landsvirkjun lagði til sumarstarfsfólk frá Blöndustöð og Fljótsdalsstöð sem hjálpuðu við merkingarnar og fá þakkir fyrir. Aðal tilgangur merkinganna var að setja GSM/GPS-senditæki á 25 heiðagæsir og þrjár grágæsir til að kortleggja ferðir þeirra og nýtingu á landi. Auk þess fengu aðrar gæsir litplastmerki ýmist á fót eða háls sem hægt er að lesa á úr fjarlægð.
Heiðagæsirnar voru merktar í Eyvindarstaðaheiði, í Skagafirði, á Jökuldalsheiði og á Vesturöræfum. Náttúrustofan setti fimm senda á kvenfugla á Vesturöræfum sem fylgst verður með næstu tvö árin eða meðan líftími senditækjanna varir. Þeim var gefið nafn og bókstafur settur á hvert merki sem vísar til heitis. Þær fengu nafngiftina Kristín (K), Rán (R), Guðrún (G), Erlín og Elín (E) og Áslaug (A).
Grágæsir voru merktar á Blönduósi, í Skagafirði auk Vatnshlíðarvatns og á Norðfirði. Helsingjar voru merktir austan við Jökulsárlón á Suðausturlandi. Helsingjarnir fengu litplastmerki á annan fótinn og stálmerki á hinn. 

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Mýrargötu 10
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir