Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags fjarðamanna var haldinn 29.apríl 2023. Fjaran var óvenju seint og var mæting við Leirurnar á Norðfirði kl 15:00 en við Leirurnar á Reyðarfirði kl.16:00 eða klukkutíma síðar.
Fallegur dagur léttskýjað en svalt og vindur og hitastigið 2-4°C. Í ár mættu 5 manns á Norðfirði, að starfsmanni Náttúrustofunnar meðtöldum en 7 á Reyðarfirði. Að þessu sinni sáust 24 fuglategundir á Reyðarfirði en 14 tegundir á Norðfirði. Tegundirnar sem sáust á Reyðarfirði voru: Grágæs, heiðlóa, bjargdúfa, silfurmáfur, hettumáfur, maríuerla, þúfutittingur, skógarþröstur, svartbakur, hrossagaukur, stelkur, urtönd, tjaldur, æðarfugl, stokkönd, sandlóa, hávella, himbrimi, skúfönd, tildra, toppönd, fýll, teista og jaðrakan. Auk þess sást einn landselur. Á Norðfirði sáust: Grágæs, æðarfugl, hávella, toppönd, tjaldur, sandlóa, sendlingur, tildra, stelkur, hettumáfur, stormmáfur, silfurmáfur, skógarþröstur og heiðlóa.
Ýmsar tegundir eru rétt að mæta á austurlandið um þetta leyti og því hending að þær sjáist í svo stuttri athugun.
Um miðjan júlí fóru starfsmenn Náttúrustofunnar, Jóhann Finnur Sigurjónsson og Gildwin Philipot út í Skrúð til að freista þess að koma gagnaritum á súlur. Óðinn Logi Þórisson ferjaði og leiðsagði leiðangursmönnum um Skrúðinn og var þeim til aðstoðar og Ingólfur Davíð Sigurðsson náttúruljósmyndari festi Súlurnar og annað fuglalíf á filmu… eða minniskort.
Siglt var út frá Fáskrúðsfirði að kvöldi og unnið fram á nótt og siglt til baka snemma morguns, en oft er veðursælast við Skrúðinn að nóttu til. Leiðangurinn gekk ljómandi vel og voru settir út 15 dægurritar (GLS) og fimm staðsetningaritar (GPS) á varpfugla í byggðinni.
Þessi leiðangur er hluti framlags Náttúrustofu Austurlands í SEATRACK-verkefninu sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem miðar að því að kortleggja ferðir sjófugla úr byggðum umhverfis Norður Atlantshafið, utan varptíma. Fleiri náttúrustofur taka þátt í SEATRACK samstarfinu og undanfarin ár hafa dægurritar verið settir á lunda, ritur, sílamáfa, silfurmáfa, hvítmáfa, toppskarfa, langvíur, suttnefjur, álkur, æðarfugla og skúma hér á landi og nú bætast súlur í hópinn.
Við bíðum nú spennt fram á næsta sumar þegar reynt verður að endurheimta gagnaritana og munum þá vonandi fá frekari upplýsingar um hvar súlurnar í Skrúð hafa haldið sig yfir vetrarmánuðina.