Af Færeyjaflakki frú Áslaugar II, sviplegum örlögum Guðrúnar og væntanlegum harðindum í Bretaveldi
Eins og alþjóð ætti að vera kunnugt um, setti starfsfólk Náttúrstofunnar, í samvinnu við Verkís og WWT (Wildfowl and Wetland Trust) GPS senditæki á fimm heiðagæsir sumarið 2017. Dyggir fylgjendur Náttúrustofunnar á samfélagsmiðlum ættu að kannast vel við þær stöllur; Kristínu, Katrínu Rán, Guðrúnu, E®línu og Áslaugu, en af ferðalögum þeirra berast reglulega fréttir í gegnum þessi senditæki.
Út frá þeim gögnum sem tækin safna fást gríðarlega mikilvægar upplýsingar um lífshætti gæsa, m.a. um farhætti og búsvæðaval. Unnendur íslenskra gæsa hafa því bæði haft gagn og gaman af því að fylgjast með ferðum þeirra enda hafa ævintýri þeirra oft á tíðum þótt ansi æsileg og stundum endað með ósköpum. Gæsin Áslaug flaug til að mynda á skoska raflínu í byrjun árs 2018 en gekk svo aftur seinna á því ári þegar senditækið var sett út á aðra heiðagæs sem mætti til aðgreiningar kalla Áslaugu II.
Eftir andlátið hafði frú Áslaug II einna helst vetursetu við vesturströnd Englands, skammt norður af Liverpool. Í vor kom svo Áslaug að landi nálægt Kirkjubæjarklaustri en dvaldist við Skaftafell um þriggja vikna skeið áður en hún hélt á sumardvalarstað sinn á Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði.
Þann 13. september yfirgaf frú Áslaug landið en á leið sinni til baka dvaldi hún daglangt í Færeyjum áður en hún hélt áfram ferð sinni til vetrarstöðvanna á Bretlandseyjum. Heiðagæsir eru algengir fargestir í Færeyjum en þetta er þó í fyrsta skipti sem að íslensk heiðagæs með senditæki hefur þar viðdvöl.
Annars er það helst að frétta að af þeim fimm gæsum sem bera senditæki frá Náttúrustofunni að eftir að þær skiluðu sér allar á hefðbundnar varpsstöðar á Vesturöræfum í vor eru fjórar þeirra komnar til vetrarstöðvanna á Bretlandseyjum. Sú fimmta, Guðrún, mun hins vegar ekki skila sér til Bretaveldis en hún endaði lífdaga sína á matborði austfirsks veiðimanns. Hinar fjórar komust þó, sem fyrr segir, nokkuð klakklaust til Bretlandseyja; Katrín Rán (3. september), Kristín (12. september), Áslaug (15. september) og sú síðasta, E®lín (17. september). Þess má til gamans geta að þær stöllur voru um 9 dögum fyrr á ferðinni en í fyrra, þ.e.a.s. meðal brottfarardagur var 20. september í fyrra en 11. september í ár. Það hefur skotið Skotum skelk í bringu en þar í landi trúa margir því að snemmbúnir farfuglar sé merki um harðindi á næsta leiti sbr. á vef The Herald.