Litaafbrigði heiðagæsa
Í rannsóknum Náttúrustofu Austurlands á heiðagæsum í Austurlandshálendinu undanfarinn áratug hafa menn í auknum mæli séð gæsir með óhefðbundin útlitseinkenni sem lítið hefur orðið vart við annars staðar á landinu. Í stað hins hefðbundna bleika litar á fótum og í goggi heiðagæsa hafa sést einstaklingar með appelsínugula fætur og gogg, en einnig gæsir með blandað útlit, þ.e. annan fótinn bleikann en hinn appelsínugulann. Þetta fyrirbæri er líklega svo kölluð landnemaáhrif (e:founder effect) þ.e. þegar fáir einstaklingar með gena"galla" nema land á nýjum slóðum og afkomendur þeirra halda honum.
Þetta útlit gæsanna svipar til akurgæsa (Anser fabalis) sem verpa í norður Skandinavíu og túndrum Rússlands og Síberíu og flækjast stundum til Íslands. Akurgæsir eru stærri en heiðagæsir og hafa sterkari appelsínugula liti á fótum og í gogg. Athyglisvert er hvað þessi útlitseinkenni heiðagæsa eru algeng austanlands miðað við aðra landshluta þar sem þetta sést varla í annars ört vaxandi stofni um land allt. Það vekur upp spurningu um mögulegan skyldleika við aðra stofna.
Nánar má lesa umfjöllun um þessar appelsínugulu heiðagæsir í skýrslu Náttúrustofunnar, Heiðagæsir á Snæfellsöræfum 2012.