Eyrnamerking hreinkálfa
Auk þess að kortleggja burðarsvæði Snæfellshjarðar hefur Náttúrustofa Austurlands komið að eyrnamerkingum og utanumhald merkinga á hreinkálfum. Frá 1980 hefur stofan haldið utan um merkingar á 136 kálfum og einstaka dýri sem losað var úr sjálfheldu. Til að slíkar merkingar geti gefið upplýsingar um ferðir og svæðisnotkun hreindýra þurfa dýrin að sjást sem oftast aftur og tilkynningar um það þurfa að berast Náttúrustofu Austurlands. Fyrstu árin bárust ekki margar tilkynningar um merktu dýrin (endurheimtur) en smám saman varð almenningur duglegri að tilkynna um merkt dýr auk þess sem aðgengi og umferð um landið hefur aukist. Þótt fá dýr hafi verið merkt með þessum hætti eftir 2004 (64 dýr) hafa endurheimtur verið 72% og gefið mikilvægar upplýsingar um farleiðir, flakk dýra milli veiðisvæða og almenna svæðisnotkun þeirra.
Sævar Guðjónson á Eskifirði hefur merkt þó nokkra kálfa fyrir NA í gegnum árin. Þessa tvo kálfa merkti hann í Hraundal í Loðmundafirði 21. maí 2020.