Það er oft forvitnilegt að leita svara við fyrirspurnum sem berast Náttúrustofunni. Meðal þess sem hefur komið hefur inn á borð til okkar undanfarið eru myndir af oddalús (Idotea balthica) sem náðist í Sílapolli á Borgarfirði eystri, en hún hefur ekki verið staðfest áður á þessu svæði. Oddalúsin fékk frelsið eftir myndatökur.
Í kringum mánaðarmótin júlí- ágúst var tilkynnt um litrík fiðrildi sem höfðu sést víða á fjöllum, m.a við Kverkjökul, Hvannalindir, nálægt Brúarjökli og inn við Bjarnahýði. Reyndust þetta vera þistilfiðrildi (Vanessa cardui). Á vef Náttúrufræðistofnunar íslands má lesa um þistilfiðrildi.
Í júlí fengum við fregnir af myndarlegum ánamaðki á Egilsstöðum, hann var 34 cm langur og talið að þar hafi verið á ferðinni skoskur ánamaðkur (Lumbricus terrestris).
Í lok ágúst fengum við sendar myndir af fugli sem náðist um borð í togara. Fuglinn reyndist vera turnfálki (Falco tinnunculus) og var honum sleppt við komuna til Neskaupstaðar.
Fyrir síðust jól barst okkur marmaratíta (Halyomorpha halys) sem fannst í ávöxtum í Fjarðabyggð. Þær slæðast hingað í auknum mæli frá S-Evrópu þar sem tegundin er tiltölulega nýr landnemi frá Asíu þar sem hún er illa þokkaður skaðvaldur í ávaxtaræktun. Marmaratíta hefur ekki áður fundist á Austurlandi en staðfestur fundarstaður verður merktur fljótlega á kortið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Sjá nánari umfjöllun um tegundina á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.