Þó nokkrar gullglyrnur bárust til Náttúrustofunnar í sumar og höfðum við fregnir af þeim víða að á austurlandi. Þær vöktu athygli fólks fallega grænar en sumum leist ekki á þær. Gullglyrnur eru af bálki netvængja og er tegundin árviss flækingur hér á landi . Nánar má lesa um Gullglyrnur á vef Náttúrufræðistofnunar og á fésbókarsíðunni Heimur smádýranna.
Daði Lange Friðriksson hafði samband við Náttúrustofu Austurlands og sagði frá hreindýri sem fylgdi ánum er menn voru að smala þann 2. september síðast liðinn í Austurfjöllum suður af Dettifossi. Frétt um það birtist síðan í Morgunblaðinu; http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/06/hreindyr_birtist_ovaent_med_fenu/ Í 65.-66. hefti tímaritsins Glettings sem helgaður var 20 ára afmæli Náttúrustofu Austurlands er grein um hreindýr sem leitað hafa út fyrir hefðbundið útbreiðslusvæði á Austurlandi síðustu 100 árin. Þar er m.a. sagt frá kálfi sem sást í Hólmatungum í fyrrahaust. Hugsanlega er hér um sama dýrið að ræða. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Fyrstu trjágeitungsbúin á Íslandi fundust m.a. á Neskaupstað 1982. Margir óttast þessa iðjusömu nýbúa en þó eru til undantekningar á því. Á Egilsstöðum búa Þórhallur Þorsteinsson og Dagný Pálsdóttir en í garði þeirra voru a.m.k. tvö trjágeitungsbú í sumar, annað undir sólpalli og hitt í gróðurhúsi. Gagnkvæm virðing ríkir í þessu sambýli og segir Þórhallur að hann hafi mikið yndi af því að fylgjast með þessum vinum sínum sem aldrei hafa svo mikið sem reynt að stinga hann.