Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314
  • Hreindýr

Hreindýr

Hreindýr

 

 

 

 

 

 

Flokkun
Ríki:  Dýraríki (Animalia)
Fylking:  Seildýr (Chordata)
Undirfylking:  Hryggdýr (Vertebrata)
Flokkur:  Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur:  Klaufdýr (Artiodactyla)
Undirættbálkur: Jórturdýr (Ruminantia)
Ætt:  Hjartarætt (Cervidae )
Ættkvísl:  Hreindýr (Rangifer)
Tegund: Rangifer tarandus


Hjarðdýr
Eitt aðal einkenni hreindýra er að þau halda sig í hjörðum eða hópum en hjarðirnar eru misstórar eftir árstíma.   Líklegt er að hjarðeðlið hafi þróast að hluta til sem vörn gegn rándýrum. Fullorðnir tarfar geta hins vegar verið einfarar þar til að fengitíma kemur en þá sameinast þeir hjörðunum.


Útbreiðsla og búsvæði
Engin önnur hjartardýr lifa eins norðarlega og hreindýr en þau eru dreifð um mestallt norðurhvel jarðar allt frá 52 – 80 breiddargráðu.    Þeirra upprunalegu heimkynni ná frá Noregi og til norður Asíu. Þau hafa síðan verið flutt á nýja staði með misjöfnum árangri.  Hreindýr komu til Íslands á árunum 1771 – 87 frá norður Noregi.  Þau voru sett á land í Vestmannaeyjum, á Suður- og Suðvesturlandi, á Norðausturlandi og á Austurlandi.  Þau dóu út alls staðar nema á Austurlandi.  Talið er að harðir vetur, hagleysa og ofbeit í vetrarhögum hafi ráðið þar mestu um.  Náttúra Austurlands virðist hins vegar henta þeim mjög vel.  Kjörsvæði þeirra þar er á hálendinu norðan og norðaustan við Vatnajökul og á Austfjörðum. Annars staðar í heiminum finnast hreindýr á túndrum í norður- Evrópu, Asíu og Ameríku og einnig á mörgum norðlægum eyjum t.d. á Grænlandi og Svalbarða.

Veiðar
Ef hreindýrastofninn er það stór að honum stafi ekki hætta af veiðum, getur Umhverfisráðuneytið heimilað veiðar samkvæmt lögum og reglugerðum um stjórn hreindýraveiða.  Ár hvert er svo ákveðinn veiðikvóti út frá stofnstærð hreindýranna sem er skipt eftir veiðisvæðum og sveitarfélögum.  Árið 2015 heimilaði umhverfisráðherra t.d. veiðar á 1412 dýrum á veiðitímabilinu (15. júli til 20. september).

Vöktunaráætlanir
Lögum samkvæmt vaktar Náttúrustofa Austurlands hreindýrastofninn og gerir tillögur um sjálf­bæra nýtingu hans. Umhverfisráðherra ákvarðar gjald fyrir hreindýraveiðileyfi sem m.a. skal standa undir vöktun á veiðiþoli hreindýrastofnsins. Áætlun um vöktun og rannsóknir skal liggja til grundvallar ákvörðun ráðherra um gjald til rannsóknanna ár hvert. Forsenda sjálfbærrar nýtingar hreindýra­stofnsins er sú að fjármagn fáist til þess að sinna vöktuninni með fullnægjandi hætti.

Vöktunaráætlun hreindýra 2022

 

Lýsing
Hreindýr eru sterkbyggð og þróttmikil.  Þau eru loðin og bera höfuð lágt líkt og nautgripir.  Mikill stærðarmunur er á kynjum, tarfarnir eru allt að helmingi stærri en kýrnar.  Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt að á haustin er fallþungi kálfa að meðaltali 23 kíló, kúa þriggja ára og eldri, um 40 kíló og tarfa þriggja til sex ára, 80 – 100 kíló.  Hæð þeirra er breytileg, eða frá 87 cm – 140 cm.  Feldurinn er dökkbrúnn á sumrin en ljósari á veturna. Hárin eru hol að innan, mjög þétt og einangra vel.  Þau fljóta vel í vatni og það auðveldar dýrunum sund yfir ár og vötn.


Hornin
Rangifer tarandus er eina hjartardýrategundin þar sem bæði kynin bera horn.  Hornin vaxa árlega. Í vexti eru þau mjúk og klædd dökkbrúnni, flauelskenndri og æðaríkri húð.  Þegar hornin eru fullvaxin, harðna þau og neðst á þeim vex rótarkrans út í gegnum húðina.   Við það deyr húðin og dettur af hornunum og að lokum falla hornin af dýrunum.  Fullorðnir tarfar fella hornin í nóvember-desember, geldar kýr og ungir tarfar í janúar-mars en kelfdar kýr ekki fyrr en eftir burð í maí.   Talið er að hornin geti haft margs konar hlutverk t.d. verið stöðutákn en kelfdar kýr eru hæst skrifaðar innan hjarðarinnar seinni part vetrar, þegar hætta á harðindum er mest.  Þannig hafa þær forgang að besta beitilandinu sem tryggir viðhald stofnsins.  Hornin eru einnig mikilvæg törfum sem berjast með þeim á fengitíma.


Fæða
Hreindýr eru jurtaætur og bíta fléttur, starir, grös, lyng, blómplöntur og sveppi.  Á veturna krafsa hreindýrin upp snjónum með framfótum til að ná í fæðu sem rannsóknir benda til að er líklega mest fléttur og lyng.  Talið er að hreindýrin geti fundið lykt af fæðu í gegnum allt að 60 sm þykkt snjólag.


Far
Hreindýr færa sig á milli svæða á vorin og haustin og kallast það far.  Engar aðrar hjartartegundir ferðast eins langt né í eins stórum hópum og hreindýrin.


Fengitími
Fengitími hreindýra er á haustin, byrjar í seinni hluta september og stendur í 3 – 5 vikur. Á fengitíma gildnar háls tarfanna mikið og á þá vex sítt hálsskegg.  Í hverri hjörð er einn tarfur ríkjandi.  Tarfarnir leggja mikla áherslu á að vernda hjörð sína fyrir öðrum törfum.  Þeir hafa lítinn tíma til að bíta og eru á sífelldum þönum eftir kúm og öðrum törfum og geta því horast mikið á þessum tíma.


Meðganga og burður
Meðgöngutími hreinkúa er um það bil 227 dagar eða um 7 ½  mánuður.  Aðalburðartíminn er í maí og byrjun júní.  Í flestum tilvikum fæðir hver hreinkýr einn kálf.  Stofnstærð
Á hverju ári eru hreindýrin talin á ákveðnum svæðum til þess að áætla stofnstærð þeirra. Vetrarstofn íslenskra hreindýra 2015-2016 er áætlaður um 5000 dýr.  Stofninum er skipt í níu hjarðir. Rúmur þriðjungur stofnsins gengur í sumarhögum á Snæfellsöræfum en hinn helmingurinn dreifist frá Suðursveit og norður í Þistilfjörð.

 

Hreindýrabúskapur

Hreindýr hafa í margar aldir verið notuð í búskap.  Margir hirðþjóðflokkar á norðurslóðum stunda ennþá búskap með hreindýr t.d. Samar í Skandinavíu og Nenets í Síberíu og Chukchi í Rússlandi.  Fólkið nýtir afurðir dýranna, aðallega mjólk, kjöt og skinn til þess að búa til mat, húsaskjól, fatnað og verkfæri. Sumir hafa einnig hreindýr sem gæludýr.  Talið er að um 3 milljónir taminna hreindýra séu í heiminum í dag en áætlaður fjöldi villtra hreindýra er um 3,6 milljónir.  Á undanförnum áratugum hefur hins vegar villtum hreindýrum fækkað víða, bæði vegna veiða og ýmissa framkvæmda mannsins.

 

Hreindýr (Rangifer)

 

 

Hreindýr á Norðausturlandi apríl 2012. Kynningu má nángast hér.

Leiðsögumannanámskeið 2011 - Námskeiðsgögn má nálgast hér

Í október 2010 gáfu Náttúrustofa Austurlands í samstarfi við Þekkinganet Austurlands og NEED út bækling um hreindýr, hann má nálgast rafrænt með því að smella hér.

Powerpoint kynningu um rannsókn á hagagöngu hreindýra með hjálp
GPS-staðsetningatækja 2009-2012
má nálgast hér

Powerpoint kynningu á Innflutningi, vistfræði og vöktun hreindýra á Íslandi,
má nálgast hér

 

 

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir