Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Fuglafréttir í janúar 2003

Storkurinn
Svo fór að storkurinn (Ciconia ciconia) sem hélt til í Breiðdalnum var leiddur í gildru og fluttur hreppaflutningum til Reykjavíkur. Samkvæmt fréttum var farið að draga af honum vegna fæðuskorts en í ljós kom að hann var mjög vel haldinn, mögulega þó vegna mikilla matargjafa fuglafangara.

Storkurinn hefur hlotið nafnið Styrmir og dvelur nú í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Þar er verið að búa til nýtt og stærra búr fyrir hann en búrið á einnig að nýtast fuglum sem þurfa aðhlynningu í styttri tíma í framtíðinni. Mörgum þótti það súrt að þessi góði gestur fengi ekki að dvelja lengur í Breiðdalnum en ungu fólki á öllum aldri á Reykjavíkursvæðinu gefst í staðinn kostur til að skoða gestinn.
Eldri frétt af veiðum á storkinum

Svartþröstur
Nokkuð hefur borið á svartþresti (Turdus merula) undanfarið. Komið var á Náttúrustofu Austurlands með einn slíkan sem látið hafði lífið á gluggarúðu. Þetta var fallegur ungur karlfugl sem enn hafði ungadún á bakinu. Ekki er vitað hvort fuglinn sé fæddur og uppalinn hér á landi eða hvort hann hafi hrakist hingað undan veðri og vindum. Nokkrir svartþrestir hafa haldið til í Neskaupstað og 15 stykki á Seyðisfirði frá því í nóvember.

Gráþröstur
Þrír gráþrestir (Turdus pilaris) hafa sést á Seyðisfirði undanfarna daga.
Mynd af gráþresti af Flækingsfuglar á Íslandi.

Silkitoppur
Íbúi í Neskaupstað hafði samband við Náttúrustofu vegna þriggja fugla sem hann ekki þekkti og voru að þvælast í garðinum hjá honum. Í ljós koma að hér voru þrjár silkitoppur (Bombycilla garrulus) á ferð og staðfesti ljósmynd sem tekin var af einum fuglinum það. Silkitoppurnar sáust fyrst 27. janúar og hafa sést daglega eftir það. Ein silkitoppa sást í húsagarði á Seyðisfirði þann 29. janúar. Silkitoppur eru svipaðar stara að stærð og vexti.  Þær eru auðþekktar á breiðum toppi og rauðbrúnum til grábrúnum grunnlit. Gulur litur á endabelti stélsins er áberandi auk þess sem hún er með gult, hvítt og rautt belti á væng.  Á veturna lifa þær helst á fræjum. Nokkuð algengur flækingsfugl á veturna (í nóvember og síðar). Verpur í furuskógum nyrst í Evrópu/Síberíu og Ameríku.
Myndir af silkitoppu af vef birdguides.com

Æðarkóngur
Laugardaginn 25. janúar sást fullorðinn æðarkóngur (Somateria spectabilis) í stórum æðarfuglahóp neðan við bræðslubryggjuna í Neskaupstað. Fuglinn er með áberandi nefkamb og gulan hnúð á nefi. Hausinn er blár og alxfjaðrir svartar (axlfjaðrir æðarblika eru hvítar en gráar hjá æðarblending). Æðarkóngar eru algengir sem flækingsfulgar hér við land. Flestir sjást síðvetrar og á vorin, en nokkuð færri á öðrum árstímum. Varpheimynni þeirra eru á nyrstu slóðum, á Ellesmerelandi, nyrst í Grænlandi, á Svalbarða, Novaja Zemlya og Austur með Íshafsströndum Síberíu.
Mynd af æðarkóng af íslenska fuglavefnum.

Glóbrystingar
Fjórir glóbrystingar (Erithacus rubecula) sáust á Héraði 20. janúar, þrír þeirra í Fellabæ og einn á Egilsstöðum. Einnig hafa nokkrir glóbrystingar sést í görðum á Eskifirði og tveir glóbrystingar voru að þvælast við bræðsluna þar. Annar þeirra fannst að vísu dauður 29. janúar og hinn hefur ekki sést við bræðsluna í nokkra daga. Einn glóbrystingur hefur haldið til á Seyðisfirði og sást hann fyrst 7. nóvember og er mjög gæfur. Í lok mánaðarins sáust síðan 3 glóbrystingar saman í garði á Seyðisfirði.
Mynd af glóbrystingi af vef birdguides.com

Sefhæna
Sefhæna (Gallinula chloropus) sást á  ísskör við Fellabæ sama dag. Þetta var fullorðinn fugl, dökkbrúnn á baki, stálgrár á bringu og með rautt og gult nef en enga rauða blesu. Vigfús sá tvær sefhænur í lok nóvember og telur hann líklegt að hér sé um aðra þeirra að ræða. Dauð sefhæna fannst síðan við Fellabæ nokkrum dögum síðar.
Mynd af sefhænu af vef birdguides.com

Straumerla
Straumerla hefur sést á Eskifirði síðustu daga. Síðast sást til hennar 29. janúar í fjárhúsum við bæinn Eskifjörð. Straumerlan er skild maríuerlu og er hún stéllengsta erlan. Höfuð og bak er grátt, vængir svartir og afturhluti búksins gulur (bæði á rassi og gumpi).
Mynd af straumerlu af vef The Icelandic birding pages.

Eyrugla
Eyrugla (Asio otus) sást sitjandi á staur við bæinn Sunnuholt í Seyðisfirði þann 7. janúar. Sat uglan hin rólegasta þannig að menn gátu skoðað hana vel. Að sögn þeirra sem sáu ugluna voru fjaðraeyrun mjög greinileg og því ekki farið á milli mála hvaða ugla væri hér á ferð.
Mynd af eyruglu af Flækingsfuglar á Íslandi.

Keldusvín, skógarsnípa og gráhegrar
Sést hefur til keldusvíns (Rallus aquaticus) í skurði við Blómabæ á Egilsstöðum. Einnig sást skógarsnípa (Scolopax rusticola) á svipuðum stað þegar menn leituðu keldusvínsins. Tveir gráhegrar (Ardea cinerea) hafa sést undanfarið á svæðinu í kring um Egilsstaði og Fellabæ.

Hrossagaukur, starar og smyrill
Einn hrossagaukur (Gallinago gallinago) sást á Seyðisfirði 18. janúar en þeir eru ekki algengir hér á landi á þessum tíma árs. Fjórir starar (Sturnus vulgaris) halda til á Seyðisfirði og einn smyrill (Falco columbarius) hefur sést þar af og til.

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir