Hreindýr við veginn á Fagradal og í Heiðarenda
Þeir sem hafa átt leið um Fagradalinn í október hafa eflaust rekið augun í um 120 hreindýr sem þar hafa dvalið í a.m.k. mánuð. Hreindýrin venjast umferðinni upp að vissu marki og halda ró sinni að mestu leyti meðan menn ganga ekki að dýrunum. Yfirleitt kippa þau sér ekkert upp við það þó menn stoppi til að taka myndir af þeim eða til að sjá þau betur.
Því miður kemur það þó fyrir að mönnum þykir það ekki nóg og fara og fæla dýrin. Það getur stuðlað að óróleik þeirra og aukið hættuna á því að þau hlaupi upp á veginn í veg fyrir bíla. Enn er gredda eftir í törfum sem veldur því að þeir eru meira og minna á ferðinni og æða þá stundum fyrirvaralaust upp á veginn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Skarphéðinn Þórisson tók.
Heiðarenda voru um 250 hreindýr í þremur hópum innan vegar á móts við Ærhöfða sunnudaginn 22. október. Daginn eftir fréttist að hluti þeirra hafði farið út yfir veg og girðingu. Ekki er ólíklegt að dýrin haldi sig á þessum slóðum næstu vikurnar og jafnvel að þeim fjölgi. Það er því ekki síður hætta hér en á Fagradalnum að þau verði fyrir fartækjum sem endar oftast illa fyrir báða aðila.
Vegagerðin setti upp skilti sem vara við hættunni af hreindýrum við Háreksstaðaleið og Kárahnjúkaveg eftir ítrekaða árekstra þar við hreindýr. Greinilega er þörf á að gera slíkt hið sama á Fagradalnum og í Heiðarendanum og eru þar til bær yfirvöld hvött til að bregðast snarlega við.