Merktir tarfar felldir 2007
Þann 20. ágúst felldi Ólafur Jónsson merktan tarf á Svínadal undir Teigagerðistindi við Reyðarfjörð í um rúmlega 100 dýra hópi, svokallaðri Reyðarfjarðarhjörð. Fallið af honum var nákvæmlega 100 kg og fita á baki þykkust 51 mm. Leiðsögumaður í ferðinni var Sævar Guðjónsson. Tarfurinn hafði verið merktur 2004 og því á fjórða hausti eða þriggja ára (sjá heimasíðufrétt frá 3. nóvember 2006: “Hornprúður boli”).
Þann 5. september 2007 var tarfur skotinn rétt innan við Hengifossárvatn á Fljótsdalsheiði úr hópi dýra sem runnu austan úr Ketilhrauni og stefndu vestur yfir heiði. Hann reyndist vera með hvítt plastmerki í hægra eyra. Veiðimaður var Halldóra Matthíasdóttir og leiðsögumaður Stefán Geir Stefánsson. Reimar Ásgeirsson merkti hann í Sauðárfit á Vesturöræfum þann 13. maí 2005 er hann var í rannsóknarleiðangri þar með Rán Þórarinsdóttur. Tarfurinn var því tæplega tveggja ára og fjögurra mánaða gamall og fallið af honum var 80.5 kg.
Í hvorugu tilvikinu sáu veiðimenn merkið og sýnir þetta okkur að nauðsynlegt er að merkja kálfa í bæði eyru til að forðast að þeir verði skotnir snemma á ævinni.
Ljósmyndurum þakkað fyrir afnot af myndum þeirra sem fylgja þessari frétt.
Skarphéðinn G Þórisson