Kýr ber í október
Þann 24. október voru Skarphéðinn Þórisson og Reimar Ásgeirsson að svipast um eftir hreindýrum á Fljótsdalsheiði á vegum Náttúrustofunnar. Fyrir miðri Bræðraöldu að norðanverðu ráku þeir augun í hreinkú sem stóð yfir nýdauðum kálfi. Kálfurinn var ekki nema 1-2 daga gamall en hafði verið karaður. Þetta var tarfkálfur sem vó 5.6 kg. Meðalþyngd 22 nýfæddra tarfkálfa á Vesturöræfum reyndist 5.7 kg. Ekki er vitað hvað varð honum að aldurtila. Yfirleitt bera kýrnar í maí en það virðist hafa aukist hin síðari ár að kýr beri á öðrum tíma.