Skógarsnípa
Síðastliðinn föstudag (þann 25.janúar 2008) barst stofunni bréf frá Jóni Guðmundssyni í Neskaupstað en þegar hann kom heim úr vinnu þann dag tók á móti honum óvæntur gestur, fugl lá í garðinum og virtist mjög dasaður og gat ekki hreyft sig.
Fuglinn sá reyndist vera Skógarsnípa sem er flækingur á Íslandi, árlega sjást Skógarsnípur hér á landi og grunur leikur á að varp geti leynst.
Fuglinn sem Jón fékk í heimsókn hafði fyrr um daginn sést niður við Nesskóla og síðan aftur við hús eitt á Blómsturvöllum. Í bæði skiptin sást hann á flugi en lenti síðan eins og orustuþota, lá svo eins og dauður en flaug upp þegar að honum var gengið. Í seinna skiptið sem til hans sást, flaug hann upp þegar verið var að fæla frá honum kött sem sýndi mikinn áhuga á væntanlegri bráð.
Þegar Jón tók síðan fuglinn í garðinum hjá sér þá hafði blætt úr fæti hans. Þrátt fyrir að að fuglinum væri hlúð þá gaf hann upp öndina á laugardaginn
Ljósmyndir Jón Guðmundsson.