Könnun á frjósemi hreindýra 18 og 19 april 2008
Þann 18. og 19. apríl 2008 var leitað að hreindýrum á Fljótsdalshérað, Lóni, Álfta- og Hamarsfirði úr flugvél, hóparnir myndaðir og einkum horft eftir hlutfalli hyrndra kúa. Flogið var með TF API, flugmaður Jón Egill Sveinsson.
Á Fljótsdalshéraði fundust tæp 1000 dýr, einkum í Fljótsdalsheiðarbrúnum og einn hópur í Heiðarenda á inneftirleið. Mikill snjór var á heiðum svo engin dýr sáust á Snæfellsöræfum eins og undanfarin ár. 78 kýr og vetrungar voru ofan við Brennistaði í Eiðaþinghá eflaust ættuð úr Loðmundarfirði og 93 dýr, mest tarfar voru innan við Mýnes eflaust mest tarfar af svæði 2. Hlutfall hyrndra=kelfdra kúa var 92%.
Í Lóni fundust 152 dýr og þ.a. helmingur kýr. Af um 240 dýrum í Álftafirði voru um 170 komin inn á Geithelladal, í fjórum hópum, mest kýr á leið á burðarsvæði. Í 96 dýra hópi á Háaás var hyrnd kýr með borða um hálsinn sem Ragnar Eiðsson á Bragðavöllum festi á hana þann 28. janúar er hann losaði hana úr girðingu við Bragðavelli. Mikið af slóðum sást inn allan Hamarsdal inn undir Ytri Bót og þar upp á hjalla sem voru auðir að hluta en enn mikill snjór. Hlutfall hyrndra=kelfdra kúa var 88%.
Sex hyrndar kýr, fimm vetrungar og einn tarfur á öðrum vetri voru innst undir Sauðahlíðum í Geitdal.
Greinilegt er að frjósemi í stofninum er eins og best verður á kosið.
Myndir:
1. Hreindýrshópur í Fljótsdalsheiðarbrún innan við Teigsbjarg.
2. Ekki sá á dökkan díl á Snæfellsöræfum.
3. Hópur í Heiðarenda á inneftirleið.
4. Hópur ofan við Brennistaði í Eiðaþinghá.
5. Álftafjarðardalir.
6. Kýr með borða um hálsinn efst í hópnum vinstra megin við miðju.