Ólíkindatólið Hauga 1919
Hengt var staðsetningartæki um háls hreindýrs þann 15. febrúar síðast liðinn í Haugahólum í Skriðdal og var hún því skýrð Hauga. Því miður heltist hún við að fá svæfipíluna í lærið og hélt sig líklega þess vegna á svipuðum slóðum þar til hún braggaðist í lok mars. Þá fór hún yfir í Geitdal og hélt sig þar næstu daga.
Fyrri partinn í apríl lenti hún utan þjónustusvæðis og ítrekaðar tilraunir að finna hana í og inn af Geitdal svo og á Snæfellsöræfum báru engan árangur. Seint og um síðir komst hún í samband og hefur verið að mjatla ferðasögu sinni í Náttúrustofuna. Í staðinn fyrir að rölta inn á Snæfellsöræfi fór hún niður í Hamarsdal og síðustu staðsetningar frá 23. maí sýna að þá var hún inn af Leirdal austan Þrándarjökuls. Verður spennandi að fylgjast með því hvar hún muni ganga í framtíðinni og hvort hún heimsæki Skriðdalinn aftur næsta vetur.