Staðsetningartæki hengd um háls hreinkúa – ferðir Grímu (1920)
Í febrúar og mars voru staðsetningartæki hengd um háls fimm kúa í Snæfellshjörð og tveggja í Álftafjarðarhjörð. Í hálskrögunum eru gps-staðsetningartæki sem staðsetja kýrnar á þriggja tíma fresti í rúm tvö ár. Upplýsingarnar eru síðan sendar sem SMS skilaboð. Núna og á næstunni verður sagt frá ferðum þeirra.
Gríma (1920): Náðist 15. Febrúar utan Hrafnafells í Fellum upp af Grímstorfu sem réði nafni hennar.
Gríma stutt utan við Ytri Sauðabanalæk 100 m frá veg á Fljótsdalsheiði í maí 2009.
Ferðir Grímu frá febrúar til byrjun júlí í stuttu máli.
Í febrúar og marsbyrjun hélt Gríma sig í Út-Fellum en fikraði sig síðan inn Fljótsdalinn og í lok apríl var hún komin inn að Axará á Fljótsdalsheiði. Í maí og fyrri hluta júní hélt hún sig mest utan og innan við Laugarfell en fór þá inn að Bergkvíslarnesi, yfir Þóriseyjar og inn í Þjófadali sunnan Snæfells. Þar hélt hún sig í nokkra daga í yfir 1000 m hæð. Þaðan skrapp hún niður að Eyjafelli og var þar um slóðir þar til þann 22. júní er hún hélt í vestur á Vesturöræfi. Þar gekk hún fram að mánaðarmótum og þann 29. júní var hún í um 300 dýra hópi hvar í var líka kýrin Hnefla (1923). Daginn eftir var hún aftur komin á Eyjabakkana og þegar þessari ferðasögu líkur þann 4. júlí er hún í Sauðaflóa á milli Sauða- og Laugarfells og nú eru hún og Hnefla ekki lengur í sömu hjörðinni.
Staðsetningar á 1920 (Grímu) frá febrúar til 4. júlí – febrúar blár, mars fjólublár, apríl ljósfjólublár, maí ljósgrænt, júní grænt og júlí gult. Númer tákna síðustu staðsetningu þess dags.