Spaugilegur hrafn í Breiðuvík
Áður en skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Breiðuvík var opnaður í sumar sáu menn að útivaskur og verönd voru útdrituð. Kom í ljós að hrafn hafði séð sjálfan sig í spegli ofan við vask og lagt þegar til atlögu svo stórsá á krossviðnum við spegilinn og sögðu menn að einnig hefði sést blóð á speglinum. Rifjaðist upp að fyrir nokkrum árum fannst dauður hrafn við bensíndælur upp á Hallormsstað en sést hafði til hrafnsins berjast lengi við sjálfsmynd sína. Snjallir Borgfirðingar komu fyrir hugvitlegri hrafnavörn við vaskinn eins og sést á myndinni.
Ástæða þess hversu þaulsetinn hrafninn var við skálann gæti verið sú að Borgfirðingar voru með æti fyrir tófu við skálann og biðu hennar síðan á skálaloftinu. Ekki skilaði það neinu og ætið var urðað áður en ferðamenn mættu á svæðið.
Annað sem vakti athygli var vírnet um strompop sem sett var upp eftir að 21 dauðir starar fundust í eldstónni fyrir nokkrum árum.