Hreindýr jólasveinanna?
Hreinkýrin Ána hefur tekið lykkju á sína hefðbundnu leið undafarna daga og leiða menn líkum að því að jólasveinarnir í Dyrfjöllum og mamma þeirra Grýla hafi tekið Ánu í sína þjónustu.
Ána í Möðrudalskvos, áður en hún tók á rás út í Dyrfjöll.
(Smelltu á myndina til að lesa meira)
Ána er ein af 12 hreinkúm sem borið hafa senditæki í rannsókn á hagagöngu hreindýra sem unnið er að á Náttúrustofu Austurlands. Hún sendir frá sér boð um hvar hún er staðsett fjórum sinnum á sólahring. Ána hefur vagað um Vopnafjarðarheiði og Skjöldólfsstaðaheiði undanfarið. En þann 12. desember sl. tók Ána undarlegan hlykk á leið sína. Hún fór út í Dyrfjöll og hefur síðan verið á flakki í nágrenni við þéttbýlisstaði á Austurlandi.
Ekki er ólíklegt að Ána sé að aðstoða jólsveinana í Dyrfjöllum og mömmu þeirra Grýlu, en það er í samræmi við aldagamla reynslu Vopnfirðinga og kemur fram í Grýlukvæði sem þar var ort í upphafi 19. aldar.
Í einu kvæðinu segir frá er Grýla notaði hreindýr til reiðar og hafði tvö til klyfjar:
Í sveit brynþvara
saga er til fallin,
að tveir hafi menn
úr Tungu fundið
hávaxna konu,
heldur tröllslega,
reið hreindýri
og rak tvö með burði.
Kvæðið er eignað Sigurði Sigurðssyni sem Austfirðingar kölluðu Sigurð flótta. Hann var vinnumaður í Krossavík í Vopnafirði í byrjun 19.aldar. Hreindýr voru sett á land í Vopnafirði 1787 og hafa eflaust skipt hundruðum þar um slóðir þegar kvæðið var ort.
Hægt er að lesa önnur erindi Grýlukvæðis Vopnfirðinga í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar.
Aðrar hreinkýr með senditæki (Axa, Hlíðarenda og Ranga) virðast ekki halda sínu striki og líklegast ekki aðstoðardýr jólasveina og Grýlu þetta árið.