Ritur á Borgarfirði eystri
Þann 16. júní slóst Náttúrustofa Austurlands í för með Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrustofu Vestfjarða í ferð þeirra á Borgarfjörð eystri. Þar voru snaraðar nokkrar ritur sem merktar höfðu verið með staðsetningartækjum vorið 2009. Náttúrustofa Norðausturlands merkti fuglana á sínum tíma og var markmiðið með þessu veiðiátaki að ná staðsetningartækjunum af fuglunum aftur til að hægt væri að hlaða gögnum inn í tölvu og geta svo endurnýtt tækin.
Þar sem ritur verpa gjarnan á sama stað ár eftir ár eru góðar líkur á að ná aftur merktum fuglum á varptíma. Allar ritur með staðsetningartækjum, sem vitað var um á svæðinu náðust í þessu merkingarátaki (um 20 fuglar) og verður það að teljast góður árangur. Við veiðarnar voru notaðar sérhæfðar merkingarstangir með lykkju á endanum. Fuglarnir eru snaraðir meðan þeir liggja á hreiðri og þeim komið í hendur merkingarmanna sem klipptu staðsetningartæki af fæti fuglsins. Eftir frekari skoðun og sýnatökur var fuglum sleppt aftur og tóku þeir flugið frelsinu fegnir en lögðust svo fljótt aftur á hreiður sín.
Næst verða merkin sett á vestfirska fugla og mun Náttúrustofa Vestfjarða sjá um þá framkvæmd. Staðsetningartækið sjálft er smágert, vegur aðeins nokkur gröm og er fest á venjuleg plastmerki sem oft má sjá á merktum fuglum. Tækið nemur birtulengd og staðsetur fuglinn í grófum dráttum út frá sólargangi. Eftir á að vinna úr gögnum sem söfnuðust í þessari ferð en niðurstöður þeirrar úrvinnslu getur vonandi gefið upplýsingar um það hvar Borgfirsku riturnar halda til utan varptíma.