Þrælahálsboli
Tarfur sem Reimar Ásgeirsson merkti sem kálf í burðarathugunarferð Náttúrustofu Austurlands vorið 2008, sást nýverið utan við Jóku stutt ofan vegar í Skriðdal. Tarfurinn hafði verið merktur við Þrælaháls syðst á Fljótsdalsheiði 17. maí 2008. Hann hefur þá líklega verið innan við sólahrings gamall.
Móðir kálfsins sætti sig ekki við merkingaraðfarir starfsmanns Náttúrustofunnar á afkvæmi sínu og gerði skyndilega atlögu að merkingarmanni Hreinkýr eru hyrndar á þessum tíma árs og ekkert gamanmál að víkja sér undan þeim í slíkum ham. Reimar slapp þó með skrekkinn í þetta sinn og náði að smella merki í eyra á bola áður en honum var sleppt til móður sinnar.
Ekki var við öðru að búast en að kálfur með svona ákveðna móður kæmist vel á legg. Um haustið sást hann í fylgd móður sinnar við Hölkná á Fljótsdalsheiði og um vorið 2009 sást hann með vetrungum ofan við Valþjófsstað í Fljótsdal að stíga sín fyrstu skref fjarri vökulum augum móður sinnar. Haustið 2010 sást hann aftur á Flatarheiði austan við Múla, pattaralegur eftir sumarið og tilbúinn fyrir annan vetur og jafnframt þann fyrsta þar sem ekki gætti eftirlits og vörn móðurinnar. Sá vetur reynist vetrungum gjarnan erfiðari en aðrir vetur.
Nú í byrjun mars 2011 sást boli enn og nú í Skriðdal ásamt fleiri törfum. Tarfarnir eru kollóttir á þessum árstíma og auk þess magrir og belgmiklir eftir að hafa lifað á næringarsnauðum vetrargróðri í marga mánuði. Þrátt fyrir þetta var hópurinn í ágætu ásigkomulagi og að öllu óbreyttu bíður þeirra betri tíð með grös í haga á næstu mánuðum.