Talningar í júlí
Ár hvert telur náttúrustofan hreindýr í júlí og reyndar heiðagæsir á Snæfellsöræfum líka. Ekki er endanlega búið að ganga frá talningarskýrslum en helstu niðurstöður verða reifaðar hér.
Þann 27. júní voru aðeins 27 kýr með 26 kálfa í Kringilsárrana og þar í hópnum var senditækjakusan Ranga með sinn kálf. Á sama tíma voru tæp 200 dýr stutt utan við Kringilsánna. Þegar flogið var yfir Ranann þann 12. júlí sást ekkert hreindýr þar.
Þann 27. júní voru 568 dýr á Vesturöræfum og 401 á Eyjabökkum. Í flugi 7. júlí voru aðeins 281 dýr á Vesturöræfum en 582 á Eyjabökkum.
Greinilegt var að dýr höfðu farið af Vesturöræfum austur fyrir Snæfell því þar sást í hjörð eyrnamerkt kýr sem fyrr hafði verið vestan Snæfells.
Erfitt er að telja hreindýr á Austfjörðunum vegna óheppilegra veðurskilyrða fyrir flug en nú tókst að telja á svæði 7 þann 4. júlí með góðri aðstoð Skúla Benediktsson. Á Lónsheiði-Starmýrardal-Víðidal fundust 411 dýr og 1297 frá Álftafirði norður í Berufjörð.
Heiðagæsir voru myndaðar úr flugi á Snæfellsöræfum þann 12. júlí en talningu af myndum er ekki lokið.
Halldór Bergsson flaug með talningarmenn og Jón Ingi Sigurbjörnsson aðstoðaði við talningar eins og oft áður. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir teknar í þessum flugtalningum.