Kristín snýr til starfa á ný.
Kristín Ágústsdóttir starfsmaður Náttúrustofu Austurlands snýr nú til starfa á ný eftir tveggja ára námsleyfi. Hún lauk í vor mastersnámi i eðlisrænni landafræði og vistkerfisgreiningum með áherslu á landupplýsingatækni við háskólann í Lundi í Svíþjóð.
Í lokaverkefni sínu skoðaði Kristín tengsl makrílveiðistaða á Íslandsmiðum frá 2007-2012 við mimsmunandi gervitunglabreytur. Meginmarkmiðið var að afla upplýsinga
fyrir mögulegar fiskiveiðispár, sem geta stuðlað að minni orkunotkun fiskiskipa.
Tilgátan var sú að fjarkönnunargögn úr gervitunglum væru uppspretta gagnlegra upplýsinga til að ákvarða vænlegar fiskislóðir á Íslandsmiðum. Helstu niðurstöður voru þær að árangursríkast væri að veiða makríl þar sem styrkur ljóstillífunargeislunar er mikill, þar sem styrkur blaðgrænu er hvorki of mikill né of lítill og við yfirborðssjávarahita á bilinu 7-13°C. Jafnframt virðist sem tærleiki sjávar skipti máli. Þessar niðurstöður gætu gefið til kynna að makríllinn sé háðari sjón við fæðuöflun en gjarnan er talið.
Hægt er að skoða úrdrátt úr verkefninu, bæði á ensku og íslensku á vef Lundarháskóla. Verkefnið nefnist: : Fishing from space : mackerel fishing in Icelandic waters and correlation with satellite variables.