Vetrartalning á hreindýrum 22. -30. mars 2014
Náttúrustofa Austurlands vill vekja athygli á því að dagana 22. til 30. mars stendur yfir vetrartalning á hreindýrum um allt Austurland. Útbreiðslusvæði dýranna hefur verið skipt niður í afmörkuð talningarsvæði og staðkunnugir, hreinglöggir talningarmenn fengnir til að telja þau.
Samstilltar vetrartalningar á hreindýrum voru framkvæmdar reglulega á árunum 1991 til 2005. Í upphafi voru talningarnar í höndum Veiðistjóraembættisins en Náttúrustofan tók við þeim árið 2000. Síðustu veturnir voru snjóléttir og erfiðara reyndist að telja við þær aðstæður. Síðustu ár hefur því þótt vænlegra að telja aðeins hluta svæðisins í einu og gera það á öðrum árstímum úr lofti.
Nú hefur fjöldi, og ekki síst dreifing dýra verið að breytast á síðustu árum. Talningar á hluta útbreiðslusvæðis gefa ekki nógu góðar upplýsingar við slíkar aðstæður og því var sótt um og fenginn styrkur úr Veiðikortasjóði fyrir vetrartalningu.
Ofankoma í vetur hefur verið í meira lagi og þótt snjóalög séu létt í byggð er fannfergi mikið á heiðum og til fjalla. Reiknað er með að víðast hvar séu hreindýr komin niður á láglendi.
Markmið vetrartalninga er að fá heildarmynd af fjölda og dreifingu hreindýra á Austurlandi að vetrarlagi. Niðurstöðurnar nýtast við ákvörðun veiðikvóta sem aftur stýrir þéttleika dýra á hverju veiðisvæði. Þannig er reynt að koma í veg fyrir að dýrum fjölgi eða fækki of mikið. Upplýsingar úr vetrarveiði nýtast einnig við að meta ágang hreindýra á jarðir á Austurlandi. Mat á ágangi er ein aðal forsenda arðsskiptingar.
Náttúrustofa Austurlands vill hvetja áhugasama til að hafa augun opin fyrir hreinhópum og senda okkur línu um staðsetningu hópa og hvaða daga eða tímabil hóparnir sjást. Þeir sem treysta sér til mega einnig senda upplýsingar um samsetningu (kyn og aldur) og stærð hópa. Ef menn luma á upplýsingum um staðsetningu hreindýrahópa frá því fyrr í vetur, þá er þetta kjörið tækifæri að senda slíkt til okkar. Allar upplýsingar um hreindýrahópa má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.