Fræðsluganga í Vatnajökulsþjóðgarði: Heiðargæsir á Eyjabakkökkum
Þann 7. ágúst síðastliðinn bauð Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúrustofa Austurlands upp á kvöldfræðslugöngu um Ramsarsvæðið Eyjabakka.
Veður var slæmt og niðdimm þoka yfir öllu. Var því aðeins breytt út af áætlun og hluti umræðna látnar eiga sér stað yfir rjúkandi kaffibollum í Laugarfellsskála. Svo var látið reyna á aðstæður og lagt af stað inn í þokuna. Ekki er hægt að segja að svæðið hafi skartað sínu fegursta þó þokunni fylgi ákveðin dulúðarfull heiðarstemning. Aðeins létti þokunni á smá kafla og mátti þá sjá gæsir á víð og dreif um svæðið.
Heiðargæsir sem ekki eru í varpi (geldgæsir) koma saman á Eyjabökkum í stórum hópum til að fella flugfjaðrir einu sinni á ári og eru þá ófleygar á tímabili. Eyjabakkasvæðið hentar mjög vel til þess þar sem fæðuframboð fyrir gæs er gott og eins eru flóttaleiðir út á vötn og ár margar og greiðar. Þeir sem lögðu á sig ferðalagið inn í þokuna þetta kvöld urðu vonandi nokkurs vísari um heiðargæsir og Eyjabakkasvæðið en eru jafnframt hvattir til að láta þetta ekki verða sína síðustu ferð á svæðið heldur leyfa einnig náttúrufegurð svæðisins að heilla sig á góðviðrisdegi.