Vetrartalning hreindýra á Austurlandi 2014
Dagana 22.-30. mars 2014 voru hreindýr talin frá Suðursveit norður í Þistilfjörð. Ráðnir voru staðkunnugir hreindýramenn til að telja og réðu þeir sér aðstoðarmenn þar sem þess þurfti. Auk þess sá Náttúrustofan um að telja nokkra stóra hópa úr flugvél. Talningin naut styrks úr Veiðikortasjóði. Talið hefur verið að vetri á öllu Austurlandi annars slagið frá 1991. Síðast var talið 2005 svo kominn var tími á nýja talningu einkum í ljósi þess að dreifing dýranna hefur verið að breytast síðustu árin. Skemmst er frá því að segja að hún tókst afskaplega vel nú og fundust 4790 hreindýr sem er aðeins 40 færra en áætlanir Náttúrustofunnar gerðu ráð fyrir.
Snjóalög hjálpuðu mjög til við talninguna þar sem mikill snjór var til fjalla og um allar heiðar en nær autt á láglendi eins og myndirnar sýna.
Þegar talningarnar eru bornar saman í gegnum tíðina sést að aðal breytingarnar eru fjölgun dýra norðan Jökulsár á Dal og sunnan Stöðvarfjarðar á kostnað Jökuldals og Fljótsdals.
Öllum þeim sem komu að talningunni og stuðluðu að því hversu vel hún tókst er þakkað kærlega. Samantekt um niðurstöður er að finna í meðfylgjandi skjali.
Vetrartalning hreindýra 22.-30.mars 2014