Safnadagurinn í Safnahúsinu í Neskaupstað
Fimmtudaginn 18. maí sl. var Alþjóðlegi safnadagurinn haldinn hátíðlegur víða um landið. Safnahúsið í Neskaupstað var opið og stóð Náttúrustofa Austurlands fyrir opnun í safninu og var gestum og gangandi boðið að koma og skoða safnið. Að auki stóð Náttúrustofan fyrir spurningaleik fjölskyldunnar þar sem gestir voru hvattir til að svara nokkrum snjall-spurningum um fugla í náttúru Íslands.
Leikurinn fór fram með þeim hætti að spurningar voru staðsettar víðsvegar um Náttúrugripasafnið og var hægt að finna svörin með því að skanna QR kóða á spurningaspjöldum.
Fjölmargir gestir komu í safnið og þátttakan í leiknum var mjög góð. Dagbjört Lilja var dregin úr pottinum og hlaut hún í verðlaun bókina Undur Mýtatns - um fugla, flugur, fiska og fólk.
Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna og minnum á að safnið er opið mánudaga til laugardaga milli kl 13.00 og 21.00 og sunnudaga milli kl 13:00 og 17:00.