Uppstoppaður hreindýrstarfur á Náttúrugripasafninu í Neskaupstað
Vorið 2017 fékk Náttúrustofa Austurlands styrk úr Samfélagssjóði Alcoa til að stoppa upp hreindýrstarf til sýningar á Náttúrugripasafninu í Neskaupstað. Tarfurinn var veiddur með sérstöku leyfi umhverfisráðuneytisins, haustið 2017 á Bræðrahrygg á Hraunum og stoppaður upp af Reimari Ásgeirssyni á Egilsstöðum. Farið var víða í leitinni að rétta dýrinu en lagt var upp með að krúnan væri með allt sem prýðir íslensk hreindýrshorn, spaða, bakgreinar, langar krúnugreinar og góða samhverfu milli hornanna. Hann vó 96 kg og var sennilega 5 vetra. Það er mikill fengur að hafa svo glæsilegt eintak af einu helsta einkennistákni austfirskrar náttúru meðal safngripa.
Tarfurinn var frumsýndur á upplestrarkvöldi rithöfunda sem haldið var í Safnahúsinu þann 7. desember sl. Tarfurinn hefur ekki fengið nafn, en mögulega fá gestir og gangandi á safninu að velja á hann nafn með tíð og tíma. Fyrir sumaropnun verður gengið endanlega frá honum í sýninguna í Náttúrugripasafninu og sett upp fræðsluefni tengt tarfinum.
Vonir standa til að hann veiti mörgum ánægju og að hann nýtist t.a.m. þeim bekkjum grunnskóla á Austurlandi sem vinna með námsefni um hreindýrin á Íslandi, sem og ferðamönnum sem láta sig dreyma um að sjá hreindýr í Íslandsheimsóknum sínum.