Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Minning Skarphéðinn G. Þórisson

MinningargreinamyndÍ dag fylgjum við kærum starfsfélaga Skarphéðni síðasta spölinn. Skarphéðinn kom í fast starf hjá Náttúrustofu Austurlands árið 2000, þegar stofnunin tók við vöktun hreindýra á Íslandi. Náttúrustofan hefur notið starfskrafta hans óslitið síðan. Þó nú væri farið að líða að starfslokum höfðum við væntingar um að geta gengið í hans viskubrunn áfram. Skarphéðinn undirbjó og stýrði hreindýrarannsóknum í áratugi og var í árlegri sumartalningu hreindýra þegar hann lést. Samleið Skarphéðins og hreindýranna var þó miklu lengri, en hann kom fyrst að rannsóknum á þeim árið 1979, eða jafnvel strax árið 1787 þegar hreindýr komu fyrst til Austurlands, eins og stundum var grínast með. Enginn hafði jafn yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum hreindýrum, sögu þeirra, vistfræði og lífsháttum eins og hann. Þá hafði hann byggt upp öflugt tengslanet áhugafólks um íslensk hreindýr við íbúa Austurlands, veiðimenn, listamenn og innlenda og erlenda vísindamenn.

Skarphéðinn var öflugur náttúruvísindamaður og íslenskt fræðasamfélag hefur misst mikið við fráfall hans. Auk hreindýrarannsókna kom hann að fjölmörgum öðrum verkefnum stofunnar. Enginn kom að tómum kofanum hjá honum, hvort sem reynt var að greina fugl, stein, skordýr, plöntu eða jafnvel stöðvarkóng. Jarðfræðina las hann úr landslaginu og örnefni kunni hann manna best. Ekkert í náttúrunni var honum óviðkomandi og svo margt sem honum þótti spennandi og áhugavert. Það var afar gefandi að vinna með slíkum eldhuga. Hann átti auðvelt með að deila þekkingu sinni og náði til allra á jafningagrunni, hvort sem um var að ræða leikskólabörn, starfsfélaga, aðra vísindamenn eða áhugafólk um náttúrufar. Hann miðlaði í samtölum, fyrirlestrum og skrifum en ekki síst með ljósmyndunum sem voru mikil listasmíð.

Skarphéðinn var ekki bara náttúruvísindamaður, hann var mannvinur sem hafði áhuga á fjölbreytileika mannlífs, náttúruvernd, sögu, menningu og listum og hafði áhrif á samfélagið sem hann var hluti af hverju sinni, hvort heldur það var á Austurlandi eða í Afríku.

Vissulegar var Skarphéðinn einstakur starfsfélagi, en það orð fangar ekki það sem hann var okkur. Hann var hluti af vinnufjölskyldunni okkar. Hann var greiðvikinn, gefandi og hjálpsamur vinur, hvetjandi og hógvær og bar virðingu fyrir verkefnum annarra. Vissulega stundum stríðinn og hafði sína sérvisku eins og við öll. Fyrir utan að vera einn öflugasti starfsmaðurinn í vettvangsvinnu, með sín haukfránu augu sem gátu komið auga á grástör eða gullstör úr mílufjarlægð, var hann líka alltaf sá best klæddi.

Minningarbrot sem þessi ná engan vegin utan um það sem Skarphéðinn var okkur og svo mörgum öðrum. Með miklum trega kveðjum við hann og þökkum honum vináttuna og samfylgdina.

Ragnhildi, börnum hans og öðrum aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um lífsgleði hans og eldmóð veita styrk á erfiðum tímum.

F.h. starfsfólks og stjórnar Náttúrustofu Austurlands
Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir