Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Minning Fríða Jóhannesdóttir

Frida   webbÍ dag kveðjum við Fríðu í hinsta sinn. Fríða kom til starfa hjá Náttúrustofu Austurlands í september sl. og sinnti m.a. rannsóknum og vöktun hreindýra. Hún var í árlegri sumartalningu hreindýra þegar hún lést. Fríða var vel menntaður vísindamaður með fjölbreytta reynslu víðs vegar að úr heiminum. Við töldum mikinn feng að fá hana til stofunnar. Hún vann af krafti við að setja sig inn í ný verkefni og átti sannarlega framtíðina fyrir sér við rannsóknir á náttúru Austurlands.

Fríða hafði margt til brunns að bera sem einkennir góðan vísindamann, hún var opin fyrir nýjungum, skörp, lausnamiðuð og brann fyrir viðfangsefnum sínum, sem snérust á einn eða annan hátt um að rannsaka hvernig dýr bregðast við breytingum í umhverfi sínu. Fríða var frumleg í nálgun og tilbúin að skoða viðfangsefni sín frá ólíkum hliðum. M.a. hafði hún hugmyndir um að túlka niðurstöður með aðstoð listamanna. Hún hafði mikinn áhuga á að miðla vísindum til almennings, einkum ungs fólks til að vekja áhuga. Það kom bersýnilega fram í samskiptum hennar við frændsystkinin hennar sem hún talaði svo fallega um og var augljóslega stolt af.

Fríða var góður samstarfsmaður, örlítið feimin í fyrstu, hógvær, jákvæð, hlýleg og skemmtilega húmorísk og glettin. Það var gaman að spjalla við hana, enda hafði hún sinnt frumlegum rannsóknum um ævina og hafði frá mörgu að segja. Fríða hafði samkennd með bæði mönnum og dýrum og voru mýs og íkornar í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Það var henni því mikið tilhlökkunarefni að undirbúa vöktun á hagamúsum sem hefjast áttu í haust í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Við munum alltaf minnast Fríðu hlýlega þegar við rekumst á þessi dýr í framtíðinni.

Því miður voru kynni okkar af Fríðu alltof stutt og svo margar minningar sem átti eftir að skapa. Við yljum okkur nú við góðar minningar úr samverustundum í skemmtilegri starfsmannaferð Náttúrustofunnar á Seyðisfjörð í lok júní og í Múlanum á föstudeginum fyrir slysið. Þar lék hún á alls oddi og sagði okkur meðal annars með bliki í auga hvað hún hlakkaði mikið til að fara að fljúga hreindýraflug með Skarphéðni þá helgi. Við geymum dýrmætar minningar með okkur.

Kæra Fríða, við kveðjum þig með trega og þökkum þér innilega fyrir vináttuna og samstarfið.
Foreldrum Fríðu, systrum, mágum og frændsystkinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um yndislegu og glettnu Fríðu veita styrk á erfiðum tímum

Fyrir hönd starfsfólk og stjórnar Náttúrustofu Austurlands Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður

 

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir