Náttúrustofa Austurlands á Tæknidegi Fjölskyldunnar
Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í níunda sinn sl. laugardag. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka kynntu starfsemi sína svo dagskráin var fjölbreytt og höfðaði til allra aldurshópa. Dagurinn heppnaðist vel og var fjölsóttur af fólki allsstaðar að af Austurlandi.
Náttúrustofan tók að sjálfsögðu þátt og kynnti ýmis verkefni sem stofan vinnur að. Meðal annars voru sýndir hálskragar sem fara á hreindýr og senda staðsetningargögn, skoðuð voru landupplýsingagögn um hreindýr og gæsir, aldur hreindýrakjálka var metinn, sýnt var hvernig myndir teknar með flygildi nýtast við kortlagningu lúpínu, botndýralíf sjávar var skoðað undir víðsjá og síðast en ekki síst gátu gestir spreytt sig á fuglaratleik um svæðið.
Verkmenntaskólinn á hrós skilið fyrir að standa að þessum flotta Tæknidegi og ljóst er að þeir gestir sem komu og nutu hans upplifðu margt spennandi.