Fugladagurinn 2024
Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags Fjarðamanna var haldinn laugardaginn 11.maí 2024. Fjaran var að þessu sinni á góðum tíma og að venju var mæting við Leirurnar á Norðfirði kl 9:30 og Leirurnar á Reyðarfirði kl 10:30 eða klukkutíma síðar.
Veðrið á Norðfirði var með besta móti, sól og ágætlega hlýtt en hvessti örlítið eftir því sem leið á morguninn og dró þá ský fyrir sólu. Á Reyðarfirði var breytileg gola og skýjað og hiti í kringum 8°C.
Í ár mættu fjórir einstaklingar á Reyðarfirði en átta á Norðfirði auk starfsfólks frá Náttúrustofunni. Fjöldi tegunda sem sást að þessu sinni voru alls 32 fuglategundir á Reyðarfirði en 26 á Norðfirði.
Á Reyðarfirði: grágæsir, skúfendur, bjargdúfur, hettumáfar, stelkar, hrossagaukar, heiðlóur, jaðrakan, kríur, skógarþrestir, hrafnar, maríuerlur, stokkendur, urtönd, sandlóur, rauðhöfðaendur, tjaldar, spóar, silfurmáfur, tildrur, súla, teistur, æðarfuglar, straumendur, sendlingar, hávellur, fýlar (múkkar), svartbakar, toppendur, bjartmáfar, lóuþrælar og auðnutittlingur.
Á Norðfirði: Heiðagæsir, grágæsir, rauðhöfðaendur, stokkendur, æðarfuglar, straumendur, hávellur, toppendur, tjaldar, sandlóur, spóar, jaðrakan, stelkar, tildrur, lóuþrælar, sendlingar, kjói, hettumáfar, silfurmáfar, hvítmáfar, kríur, lómar, fýll (ótalinn), hrafn, maríuerla, þúfutittlingur