Kóngasvarmi á Djúpavogi
Á dögunum barst Náttúrustofunni tilkynning um kóngasvarma (Agrius convolvuli ) sem fannst á Djúpavogi. Kóngasvarminn er gríðarstórt fiðrildi (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) sem berst hingað árlega frá Suður-Evrópu, einkum á þessum tíma árs.
Erling Ólafsson skordýrafræðingur hefur hvatt þá sem eiga blómstrandi og ilmandi skógartopp í garði sínum að hafa augun sérstaklega opin, fara út í kvöldmyrkrinu og kanna hvort kóngasvarmar leynist þar: “svermandi kyrrstæðir í loftinu með langan sograna sinn á kafi ofan í blómi”.
Það var Aron Elísson, 12 ára, sem að fann fiðrildið á tröppunum heima hjá sér. Frænka hans Íris Birgisdóttir tilkynnti Náttúrustofunni svo um það. Þess má til gamans geta að Íris og fjölskylda eru ákafega eftirtektarsöm og hafa m.a. tilkynnt bogkrabba, nátthegra, sefþvara og stöðvarkónga í gegnum tíðina og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Slíkar skráningar eru ómetanlegar heimildir um náttúrufar á landinu.
Í kjölfar fundarins á Djúpavogi barst Náttúrustofunni önnur tilkynning um mjög stórt náttfiðrildi sem að öllum líkindum var einnig kóngasvarmi. Það fiðrildi sást undir rökkur í Kálfafellsdal í Suðursveit, utan við Gjábotnin en það var Skúli Benediktsson hreindýraleiðsögumaður og veiðimenn sem voru með honum í för sem að rákust á það. Þriðja tilkynningin um kóngasvarma kom svo frá Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu fyrir fáeinum dögum. Við hvetjum alla til að hafa augun opin fyrir þessum fallegu gestum sem miðað við tilkynningar undanfarna daga vera víða á sveimi um þessar mundir.
Hægt er að lesa meira um Kóngasvarma á pödduvefnum
Meðfylgjandi ljósmyndir:
Hálfdán Helgi Helgason, Gréta Dröfn Þórðardóttir og Elínborg Sædís Pálsdóttir