Blómadagurinn
Sunnudaginn 15. júní 2008 stóðu Flóruvinir og Náttúrustofa Austurlands fyrir tveggja tíma gönguferð með ókeypis blómaleiðsögn. Mæting var góð, einnig veðrið og skoðunin hin ánægjulegasta. Farnar voru fjórar ferðir:
Egilsstaðir:
Farið frá bílastæðinu við Selskóg á Egilsstöðum kl. 10:00. Leiðsögn: Skarphéðinn G. Þórisson. 17 manns mættu þ.a. 2 börn. Gengið var upp með Eyvindará, yfir Hálslæk að 8 m háu tvístofna reynitré norðaustan í Prestakershöfða og þaðan 2-300 m í vestur hvar ferlaufungur var skoðaður í skógarbotninum. Þaðan styðstu leið á þjóðveg og bíla. Á leiðinni bent á hvar auðveldast væri að fara og skoða blæöspina í Egilsstaðaskógi.
Hjaltastaðarþinghá:
Mæting á Unaósi kl. 14:00. Leiðsögn: Þorsteinn Bergsson og Soffía Ingvarsdóttir. 5 manns í allt. Gengið út með Selfljóti að Eiðaveri, skoðuðum súrsmæru sem er í blóma um þetta leyti og auðvitað fleira sem varð á vegi okkar, mjög ánægjuleg ferð í góðu veðri.
Neskaupstaður:
Farið frá bílaplaninu við Fólkvanginn kl. 10:00. Leiðsögn: Guðrún Á. Jónsdóttir. 9 manns mættu þ.a. 3 börn. Gengið var sem leið liggur um fólkvang Neskaupstaðar um Haga, Urðir og áleiðis upp í Skálasnið þar sem þúsundblaðarós vex í brekkum. Leitað var að lyngbúa í brekkunum en hann fannst ekki að þessu sinni.
Fáskrúðsfjörður:
Farið frá tjaldstæðinu á Fáskrúðsfirði kl. 19:00. Leiðsögn: Líneik Anna Sævarsdóttir. 19 manns mættu þar af 8 börn. Gróður við Ósinn skoðaður, gengið upp í Bakkagil frá tjaldstæðinu og yfir að Gömlu rafstöðinni við Ljósaland og þaðan aftur að tjaldstæðinu. Þetta er ekki löng leið en gróður ótrúlega fjölbreyttur, mýri, melar, brekkur, skjólsælir bollar og lækir auk þess sem talsvert er af bæði innlendum og innfluttum trjám sem plantað hefur verið á svæðinu. Lækurinn utan við Ljósaland var óvenju vatnsmikill en börnin skemmtu sér hið besta við að fara yfir hann.
Sjá einnig http://floraislands.is/Annad/blomdag.html
Mynd 1. Hluti blómaskoðunarhóps í Selskógi.
Mynd 2. Helgi Hallgrímsson við reynitré í Prestakershöfða.
Mynd 3. Ferlaufungur á skógarbotni í Prestakershöfða.
Mynd 4. Súrsmæra út með Selfljóti.
Mynd 5. Hluti hópsins í Neskaupstað
Mynd 6. Börnin skemmtu sér við að fara yfir lækinn við Ljósaland sem var óvenju vatnsmikill. Ljósm. Sigfús Heiðar Árdal.
Mynd 7. Grasafólk hlustar áhugasamt á fróðleik frá Líneik. Ljósm. Sigfús Heiðar Árdal.
Tags: gróður, plöntur, blómadagurinn, blóm