Blómadagurinn 2010
Dagur hinna viltu blóma eða blómadagurinn eins og hann er oft kallaður var sunnudaginn 14.júní síðastliðinn farið var í skipulagðar skoðanaferðir á þrem stöðum á austurlandi.
Á Egilsstöðum var það Skarphéðinn G. Þórisson sem leiddi 14 áhugasama plöntuskoðara upp í Grímstorfu í Hafrafelli. Allir höfðu lista með þeim tegundum sem fundist höfðu í Grímstorfunni sem Hörður Kristinsson útvegaði. Var mikill hugur í fólki að finna tegundir sem ekki voru áður skráðar á staðnum. Ferðin gekk í alla staði vel þrátt fyrir smá klungur síðasta spottann sem ungir og aldnir fóru greiðlega.
Erlín Emma Jóhannsdóttir leiddi hópinn í Neskaupstað . Það voru 8 manns sem mættu í blómaskoðun í sól og hæglætis veðri. Hist var á bílastæðinu við Norðfjarðarvita og gengið út í Fólkvang, um Haga, Urðir og upp í Skálasnið. Meðal blóma sem sáust voru Villilín(Linum catharicum)sem sást í brekku ofan við göngustíg en var ekki í blóma og skógfjólan en hún var í blóma og sást á sama stað í fyrra.
Á Fáskrúðsfirði var það Líneik Anna Sævarsdóttir sem var leisögumaður og mættu 12 fullorðnir og 6 börn í blómaröltið. Þátttakendur hittust við eyðibýlið Brimnesgerði og gengu upp með Villingaá. Þarna eru nokkuð fjölbreytt gróðurlendi og fleiri plöntur komnar í blóma en ætla má í fljótu bragði. Þarna mátti m.a. sjá fallega breiðu af stjöstjörnum með miklum bleikum lit í blóminu og í árgilinu mátti sjá sérstakleg glæsilega steindeplu. Það sem vakti þó mesta athygli barnanna var mikill fjöldi af sniglum í brekkunum. Þetta voru einkum svartsniglar, lyngbobbar (austfjarðabobbar) og brekkusniglar. Veðrið var sérstaklega stillt og rakt og því virtust sniglarnir kunna vel. Á leiðinni inn á Búðir var stoppað ofan við Mjóeyrina og rauðberjalyng sem þar fannst s.l. haust skoðað. Lyngið var í blóma og eru ljósbleik blómin nokkuð áberandi.
Tags: gróður, plöntur, blómadagurinn, blóm