Strandaður skarfur
Sunnudaginn 18. ágúst 2013 óku vegfarendur fram á ungan dílaskarf við þéttbýlið á Egilsstöðum þar sem hann var á vappi innan um bílaumferð. Það voru þau Maríanna Magnúsdóttir og Sigurður Helgi Magnússon sem komu fuglinum til bjargar. Eftir að hafa metið aðstæður og séð í hvaða óefni skarfurinn var kominn í, var hann snarlega umvafinn teppi og settur í hundabúr og ekið með hann að Lagarfljóti þar sem honum var sleppt. Á meðfylgjandi myndum má sjá fuglinn þar sem hann var björguninni og frelsinu feginn.
Það er vel þekkt á meðal ýmissa vatnafugla að þeir eigi erfitt með að ná flugi aftur eftir lendingar inn til landsins, til dæmis; fýll, haftyðrill, skarfar, lómur, himbrimi og jafnvel fleiri tegundir allt eftir aðstæðum. Ef ekkert annað amar að slíkum fuglum er rétt að bregðast við eins og gert var við fuglinn í þessari frétt. Fínt er að tilkynna tilvik sem þessi til Náttúrustofu Austurlands.
Tags: fuglar