Sandvíkurferð
Þann 20.-21. maí sl. fór hópur fólks á vegum Náttúrustofu Austurlands í Sandvík. Tilgangur ferðarinnar var að telja fjölda hreindýra og kanna hversu margar kýr voru bornar. Vonir stóðu til að jafnframt yrði unnt að merkja einhverja hreindýrakálfa svo fylgjast megi með ferðum þeirra í framtíðinni.
Í Sandvík sáust alls 30 hreindýr, 22 fullorðin dýr og 8 kálfar. Þrír kálfar voru merktir. Eftir dvölina í víkinni var gengið yfir í Viðfjörð og þar sáust 36 hreindýr. Með í för að þessu sinni voru Sævar Guðjónsson, Anton Berg Sævarsson, Jón Á. Jónsson, Elín Guðmundsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Sigurður Daði Friðriksson, Snorri Styrkársson og Pétur Sörensen. Grétar Örn Sigfinnsson og Páll Freysteinsson skutluðu hópnum í Sandvík á bátnum Mími.
Fyrsti leiðangurinn í Sandvík til að merkja kálfa var farinn 19. maí 2001 og náðust þá fimm kálfar. Þá sáust 129 fullorðin dýr og 59 kálfar í víkinni. Næst var farið 2005 og þá voru þrír kálfar merktir. Tveir voru svo merktir 24. og 25. maí 2008 en í víkinni sáust þá um 70 fullvaxin dýr og 24 kálfar. Þann 21. maí 2010 var enn siglt í Sandvík, þar voru 74 dýr og 18 kálfar en enginn náðist til að merkja.