Fálki í vanda í Viðfirði
Þann 9. júlí bjargaði breskur gönguhópur fálka úr netagirðingu í Viðfirði. Berglind Ingvarsdóttir á Mjóeyri sagði að hann hefði verið dasaður og ekki flogið eftir björgunina. Hún bætti síðan við; „Eftir samtal við Náttúrufræðistofnun var það úr að freista þess að ná fuglinum og senda í húsdýragarðinn til aðhlynningar.... Já, við fórum út í Viðfjörð til að athuga með hann [12.7.2015]. Þá var hann á göngubrúnni og makinn vældi heil ósköp upp í hlíðinni fyrir ofan. Þegar við svo komum að honum var hann kominn í fjöruna og flaug til fjalls þegar við nálguðumst hann, flugið virtist frekar erfitt fyrir hann í fyrstu en svo lagaðist það heldur og saman flaug þetta flotta par lengst upp til fjalls.“
Þorsteinn Hjaltason myndaði fálkann og veitti góðfúslega leyfi fyrir birtingu myndanna á heimasíðu Náttúrustofunnar. Eins og sést á myndunum er þetta ungfugl þar sem hann er með gráar lappir og vaxhúð við gogg en það er gult á fullorðnum fuglum.
Tags: fuglar