Grágæsamerkingar 2016
Dagana 18.-22. júlí 2016 voru grágæsir handsamaðar og merktar á nokkrum stöðum á Norður- og Austurlandi. Megintilgangurinn var að setja sjö gsm-senda á fullorðnar grágæsir sem víðast og kortleggja ferðir þeirra næstu tvö árin. Auk senditækjagæsa voru aðrar grágæsir merktar með appelsínugulum plasthálshringjum, minni ungar fengu hvíta fótplasthringi og allar gæsirnar fengu stálhring á fót. Samtals voru merktar 149 gæsir. Merkingastaðirnir voru á Blönduósi, Vatnshlíðarvatni, Dalvík, Egilsstöðum, Bóndastaðablá á Úthéraði og Norðfirði.
Um samvinnuverkefni Verkís, WWT í Bretlandi og Náttúrustofunnar var að ræða sem nutu liðstyrks sumarvinnufólks Landsvirkjunar í Blöndustöð og Fljótsdalsstöð, vinnuskólans á Dalvík og starfsmanna Isavia á Egilsstaðaflugvelli og fleiri áhugasamra.
Tags: fuglar