Fugladagurinn 2007
Hinn árlegi fugladagur Ferðafélags Fjarðamanna og Náttúrustofu Austurlands sem haldin var þann 5. maí síðastliðin á leirunum í Norðfirði og Reyðarfirði tókst með ágætum. Dagurinn hófst kl. 09:00 á leirunum í Norðfirði undir leiðsögn Skarphéðins G. Þórissonar og Ránar Þórarinsdóttur og þrátt fyrir nokkurn kulda mættu um 12 áhugasamra fuglaskoðara við leiruna. Á leirunum við Reyðarfjörð hófst dagurinn kl. 10:30 undir öruggri leiðsögn Halldórs W. Stefánssonar en heldur fleiri eða 22 fuglaskoðarar voru mættir þar, enda Halldór ástsæll meðal fuglaskoðara á Reyðarfirði.
Samanlagt á báðum stöðunum sáust 33 tegundir fugla og nokkur hreiður fundust með eggjum. Á Norðfirði sáust 28 tegundir en einni fleiri á Reyðarfirði eða 29. Á báðum stöðunum sáust 24 tegund sem voru, fýll, álft, grágæs, urtönd, rauðhöfðaönd, stokkönd, æður, straumönd, hávella tjaldur, sandlóa, heiðlóa, sendlingur, lóuþræll, stelkur, hettumáfur, sílamáfur, svartbakur, silfurmáfur, bjartmáfur, kría, maríuerla, skógarþröstur og hrafn. Þar að auki sást á Norðfirði grafönd, rita, spói og bjargdúfa og á Reyðarfirði sáust hrossagaukur, tildra, álka, toppönd og þúfutittlingur.
Fleiri myndir frá deginum má sjá á vef Ferðafélags Fjarðamanna
Náttúrustofan vilja þakka öllum þeim sem mættu og vonast til að sjá sem flesta aftur að ári
Tags: fugladagurinn, fuglar