Fuglaskoðunardagur 8.maí ( Alþjóðlegur Farfugladagur)
Hin árlega fuglaskoðun Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags Fjarðamanna fór fram í blíðskaparveðri á leirunum í Reyðarfirði og Norðfirði laugardaginn 8.maí en dagurinn er Alþjóðlegur Farfugladagur. Að þessu sinni var hann haldinn eftir hádegi vegna þess hversu snemma morgunfjaran var.
Góð mæting var á báðum stöðum á Reyðarfirði mættu 13 manns en á Norðfirði mættu 25.
Flestar tegundirnar sem sáust höfðu sést á stöðunum áður í árlegri fuglaskoðun, aðrar hefðbundnar vantaði.
Reyðarfjörður 27 fuglategundir sáust:
Rákönd, stokkönd, stelkur, hettumáfur, urtönd, lóuþræll, heiðlóa, sandlóa, tildra, tjaldur, kjói, duggönd, skúfönd, sendlingur, toppönd, langvía, straumönd, hávella, spói, fýll, silfurmáfur, rauðhöfðaönd, jaðrakan, hrossagaukur, skógarþröstur, maríuerla og grágæs.
Norðfjörður 22 fuglategundir sáust:
Grágæs, æður, hávella, tjaldur, sandlóa, heiðlóa, lóuþræll, sendlingur, tildra, stelkur, silfurmáfur, hettumáfur, rita, kría, svartbakur, jaðrakan, stokkönd.
Til viðbótar voru síðan á leirunni norðan flugvallar á Norðfirði nokkrar skúfendur, rauðhöfðar, urtönd og síðan spói og þúfutittlingur á flugi yfir leirunni.
Þrír gráhegrar voru búnir að sjást af og til á leirunum í vetur. Bjarthegri (Egretta garzetta) hafði einnig sést þann 6. maí en það var Jón Sveinbjörnsson í Neskaupstað sem sá bjarthegrann á leirunni norðan við flugvöllinn. Jón náði myndum af honum sem staðfestir greiningu hans.
Til og með árinu 2006 hafði bjarthegri sést 14 sinnum á Íslandi en síðan þá hafa nokkrir fuglar bæst við m.a. einn við Ketilsstaði í Jökulsárhlíð 2008 og annar uppstoppaður í Fellabæ. Nánari upplýsingar um komur tegundarinnar má finna á eftirfarandi slóð:
http://www3.hi.is/~yannk/status_egrgar.html
Afar lík tegund finnst í Ameríku, svokallaður Ljómahegri (Egretta thule) en hann hefur sést mun sjaldnar á Íslandi. Hann þekkist á því að ristin er gul að aftan en bjarthegri er með alsvarta rist.
Tags: fugladagurinn, fuglar