Hellingur af hvítum hegrum
Nú í haust hafa mjallhegri (Egretta alba), bjarthegri (Egretta garzetta) og kúhegri (Bubulcus ibis) sést á Íslandi. Mjallhegrinn sem er stærstur þessara þriggja sást á Hellnum á Snæfellsnesi (sá 5. fyrir landið) en hinir tveir m.a. hér eystra.
Kúhegra, þann 9. fyrir landið sá Sólveig Sigurðardóttir við Hánefsstaði í Seyðisfirði þann 18. október eftir að heimilisfólkið þar lét hana vita. Náttúrustofan heimsótti hegrann 29. október og fylgir myndband tekið í þeirri heimsókn með því að smella hér, og hér. Annar kúhegri sást um svipað leyti. Snæþór Vernharðsson frétti af honum 21. október. Hann kom í land á Dalvík með skipinu Björgúlfi. Snæþór hafði milligöngu um þessar upplýsingar og fékk leyfi fyrir birtingu myndar sem hér fylgir með.
Í það minnsta 10 bjarthegrar hafa sést á Íslandi nú í haust og þ.a. tveir á Hornafirði, einn á Stöðvarfirði og einn í Neskaupstað.
Fjöldi þeirra nú í haust er eflaust tengdur útbreiðsluaukningu tegundarinnar til norðurs í Evrópu.
Þann 31. október hafði Metúsalem Einarsson samband við Náttúrustofuna og tilkynnti um hvítan hegra sem hann sá á Egilsstöðum. Ekki hefur enn tekist að hafa upp á honum til nákvæmrar greiningar.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessum hvítu hegrum teknum í Malaví.