Náttúrufræðinámskeið á Mjóeyri 2018
Náttúrustofa Austurlands og Ferðaþjónusta Mjóeyrar hafa frá 2008 haldið 5 daga náttúrufræðinámskeið fyrir krakka í Gönguvikunni í júní. Í ár var námskeiðið haldið dagana 25.-29. júní. Vegna aðkomu og aðstoðar frá nokkrum forráðamönnum var hægt að taka á móti met fjölda barna en í ár voru 19 krakkar skráðir til leiks. Námskeiðið er miðað við börn á aldrinum 7-10 ára og óhætt að segja að áhuginn er mikill.
Þó veður geti sett strik í reikninginn hefur það aldrei gerst að dagskrá falli niður vegna veðurs. Árið í ár var engin undantekning. Þó veður væri gott flesta dagana var svo hvasst á fyrsta degi á öllu Austurlandi að varla var stætt utandyra. Var því fuglaathugun á og við Mjóeyri breytt í safnadag á Náttúrugripasafni Neskaupstaðar. Foreldrar og aðrir forráðamenn komu þar til hjálpar m.a. með því að skutla þátttakendum. Þetta er flott safn og hjálpaði það til við dýraathuganir hvað safnmunir halda auðveldlega kyrru fyrir ólíkt lifandi fánu í náttúrulegu umhverfi.
Aðra daga voru fuglar, smádýr, plöntur, vatna- og fjörulíf skoðað utandyra auk þess sem farin var ferð í Helgustaðanámu til að kynnast silfurbergi nánar. Í Mjóeyrarfjöru var steinum velt við, sprettfiskar gómaðir, og marflær og annað kvikt gripið og skoðað nánar í lófa eða í þar til gerðum ílátum. Skeljar voru tíndar og jafnvel þangið skoðað og kreist. Hornsíli voru háfuð upp úr ferskvatnspollum og haukfrán augu ungra athugenda komu auga á rykmý sem var að kvikna í yfirborði tjarna og yfirefa lirfuhami sína. Tilraun var gerð til bryggjudorgs með veiðistöngum og helst til einföldum veiðarfærum. Voru nemendur þar jafnan reynslumeiri en kennararnir sem þurfa klárlega að slípa til veiðitækni sína fyrir næsta námskeið. Pétur Marínó sá aumur á okkur og reddaði okkur þorski sem hægt var að kryfja og skoða.
Krakkarnir spurðu óteljandi áhugaverðra spurninga sem ekki var alltaf hægt að svara en endalaust hægt að ræða. Kennarar rifjuðu ýmislegt upp og lærðu nýja hluti og á það vonandi einnig við um nemendurna. Í hópnum brá fyrir mörgum efnilegum og upprennandi náttúruskoðurum og vísindamönnum
Tags: austurland , umhverfi, Náttúran, fræðsla, náttúrufræðinámskeið, námskeið