Fyrstu dagana í apríl voru hér tveir Frakkar að gera heimildamynd um Ísland og þar á meðal hreindýrin. Heimsóttu þau senditækjakúnna Lindu sem var við Háreksstaði stutt frá vegi en varað hafði verið við hreindýrum á Jökuldalsheiði í útvarpinu um morguninn. Er dýrin fældust frá vegi sendu Frakkarnir dróna á eftir þeim og samkvæmt staðsetningum virtist hann ekki hafa haft mikil áhrif á þau. Gulir punktar á korti eru frá kl1200 og 1800 en dróninn fór á eftir þeim um 1500.
Náttúrustofa Austurlands merkti sex hreinkýr nú í mars. Verkefnið er hluti af rannsókn á burðarsvæðum hreindýra sem unnið er fyrir Landsvirkjun. Kragar með GPS voru hengdir um háls þriggja kúa á svæði 1 og sami fjöldi á svæði 2. Ívar Karl Hafliðason og Sveinbjörn Valur Jóhannsson tóku að sér verkið og stóðu sig með miklum sóma. Kýrnar voru veiddar með netbyssu frá snjósleða með leyfi yfirvalda. Kýrnar fengu allar nöfn og heita þær, Alda, Íva, Linda, Lína, Sveina og síðast en ekki síst Þúfa.
Heiðagæsirnar fimm sem fengu senditæki á Vesturöræfum í júlí 2017 komust allar til vetrarstöðvanna á Bretlandseyjum sl. haust þar sem þær hafa unað hag sínum vel. Nú í byrjun árs bárust þær sorgarfréttir að gæsin Áslaug væri öll, en hún varð fyrir því óláni að fljúga á raflínu í Skotlandi. Senditækið slapp þó við skemmdir og verður notað á aðra gæs á Vesturöræfum sumarið 2018. Hægt er að fylgjast með gæsunum hér