39 fuglategundir, hnísa og hrefna sáust á fugladeginum í ár
Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags fjarðarmanna var að þessu sinni haldinn 11. maí 2019. Fugladagurinn hefur verið haldinn árlega frá 2000 og hafa fuglaáhugamenn á ýmsum aldri komið samann á Norðfirði og í Reyðarfirði og skoðað fugla í og við fjarðarbotnana. Náttúrustofan mætir með fjarsjá og fuglabækur sem allir sem vilja geta fengið að kíkja í. Það hjálpast allir að við að finna fugla og greina þá til tegundar. Sumir mæta með eigin kíki en oftast er lítið mál að fá að kíkja hjá öðrum. Líflegar umræður spinnast gjarnan í kringum það sem sést og eru þá gjarnan skoðuð bæði greiningareinkenni tegunda en einnig spáð í ýmsu atferli, búsvæðum og fæðutegundum. Umræður skapast ekki síður um þá fugla sem fólk hefur séð að undanförnu og koma þá oft fram áhugaverðar upplýsingar. Enginn fugl er ómerkilegur og spurningar og forvitni þeim tengdum eru kærkomnar og velkomnar.
Á Norðfirði mættu sautján manns í fuglaskoðun. Veður var svalt en bjart og skyggni gott. Köld gola innan úr firði roðaði kinnar og nef fuglaskoðara og kældi jafnvel hold inn að beini ef menn voru ekki vel klæddir.
Alls sáust 30 fuglategundir á Norðfirði:
Grágæs, rauðhöfði, stokkönd, æður, hávella, straumönd, toppönd, urtönd, fýll, tjaldur, heiðlóa, sandlóa, lóuþræll, sendlingur, hrossagaukur, stelkur, tildra, jaðrakan, spói, hettumáfur, stormmáfur, sílamáfur, bjartmáfur, silfurmáfur, svartbakur, kría, bjargdúfa (með hvíta skellu á höfði og mikið hvítt í stéli), þúfutittlingur, maríuerla og hrafn .
Á Reyðarfirði mættu tíu manns veður var bjart en frekar kalt.
Alls sáust 33-34 fuglategundir:
Jaðrakan, lóuþræll, sandlóa, skúfönd, hettumáfur, maríuerla, heiðlóa, þúfutittlingur, stelkur, skógarþröstur, stokkönd, grágæs, hrossagaukur, kría, tildra, æðarfugl, silfurmáfur, bjartmáfur, hrafn, teista, hávella, fýll, toppönd, súla, rita, tjaldur, svartbakur, spói, kjói, himbrimi, rauðhöfðaönd, sendlingur, heiðagæs og ógreindir svartfuglar (mögulega langvía). Samtals 33-34 tegundir. Auk þess sáust hnísur og hrefna.
Ýmsar tegundir vantaði á svæðið að þessu sinni, m.a. urtönd, straumönd og bjargdúfu.