Aflinn mikill og óvenjulegur
Náttúrustofa Austurlands hefur verið með þrjár ljósgildrur til að veiða og vakta fiðrildi frá árinu 2010. Ein er í Neskaupstað, önnur í Hallormsstað og sú þriðja á Jökuldal. Gildran í Hallormsstað hefur gefið góðan afla undanfarnar vikur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var við tæmingu fyrr í vikunni.
Svo brá við þegar gildran í Neskaupstað var tæmd að lítil mús hafði átti sína síðustu stund við hlið ljósgildrunnar og er það í fyrsta sinn sem við skráum mús í vöktunarsögu ljósgildra hér fyrir austan.
Ljósgildrurnar verða teknar niður um miðjan nóvember og þá verður farið að vinna úr aflanum. Spennandi verður að sjá hvernig aflinn er samanborið við fyrri ár.