Hreindýravefsjá opnuð
Náttúrustofa Austurlands hefur nú opnað hreindýravefsjá sem ætlað er að halda utan um skráningu á hagagöngu hreindýra. Í gegnum tíðina hefur almenningur og ýmsir hagsmunaaðilar veitt dýrmætar upplýsingar um hvar hreindýr halda sig og hvenær. Nú er búið að gera þá skráningu aðgengilegri og geta áhugasamir skráð hreindýr sem á vegi þeirra verða jafnóðum í gegnum snjallsíma og tæki og jafnvel sent inn myndir eða myndskeið. Auk þess er hægt að sjá eldri skráningar. Nú þegar er hægt að skoða flestar tilkynningar frá almenningi fyrir árin 2015-2018. Upplýsingar frá almenningi eru dýrmætar við gagnaöflun vegna vöktunar hreindýra og viljum við hvetja alla til að skrá hreindýr sem þeir sjá. Ef vel tekst til gætu upplýsingar úr vefsjánni jafnvel nýst til að vara frekar við hreindýrum á vegum.
Gerð vefsjárinnar var í höndum starfsmanna Náttúrustofunnar og styrkt af Vinum Vatnajökuls og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og fyrir það erum við þakklát.