Fugladagurinn kaldur í ár
Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags fjarðamanna var haldinn að morgni 9.maí 2020 á Norðfirði og Reyðarfirði.
Þessi árlegi viðburður er notaleg samverustund fólks á öllum aldri sem á það sameiginlegt að hafa gaman af því að fylgjast með fuglalífi í sínu nánasta umhverfi eða bara koma saman. Stundin er alltaf góð þó veðrið sé misjafnt og í ár var fremur kalt, hiti undir frostmarki flestir voru þó vel klæddir og létu veðrið ekki stoppa sig. Á Covid-19 tímum var ekki boðið upp á sameiginlega notkun á fuglaskópi á vegum Náttúrustofunnar en flestir þátttakendur mættu með eigin sjónauka.
Á Norðfirði mættu 19 manns. Alls sáust 30 tegundir fugla en þær voru:
Grágæs, rauðhöfðaönd, stokkönd, æður, hávella, straumönd, toppönd, tjaldur, heiðlóa, sandlóa, lóuþræll, sendlingur, hrossagaukur, spói, stelkur, tildra, hettumáfur, silfurmáfur, bjartmáfur, svartbakur, kría, skógarþröstur, þúfutittilingur, maríuerla, hrafn, bjargdúfa, dílaskarfur, fýll, steindepill og síðast en ekki síst langvía.
Starfsmaður Náttúrustofu handsamaði mjög veikburða langvíu í fjörunni og fengu gestir að hlýða á heilmikinn fróðleik um langvíur og fannst börnunum sérstaklega gaman að komast í svo mikið návígi við fuglinn. Ástand langvíunnar var með því móti að þegar viðburði lauk var talið nauðsynlegt og mannúðlegast að aflífa hana með skjótum hætti og var hún svo krufin. Við nánari skoðun kom í ljós að fuglinn var kvenfugl og ungi frá 2019. Ekki er hægt að segja til um hvað nákvæmlega amaði að henni en fuglinn var mjög horaður, stór sár voru á báðum vængjum og merki voru um bólgur í innyflum.
Leiruskoðunin á Reyðarfirði byrjaði vel en lauk með verulegri snjókomu svo elstu menn mundu ekki eftir öðru eins, sem setti örugglega mark sitt á fjölda tegunda sem sást. Samantektin er eftirfarandi:
Átta manns mættu og fylgdust með fuglalífi milli kl. 10 og 12 og sáu alls 25 tegundir:
Hrafn, heiðlóa, hettumáfur, skúfönd, skógarþröstur, þúfutittlingur, hrossagaukur, grágæs, urtönd, rauðhöfðaönd, lóuþræll, stokkönd, kría, stelkur, sandlóa, æðarfugl, bjargdúfa, hávella, dílaskarfur, tildra, sendlingur, silfurmáfur, svartbakur, margæs og steindepill.