Steinahellir í bígerð. Unnið er að því að gera helli í Náttúrugripasafninu í Neskaupstað þar sem hluti steinasafnsins verður sýndur með lýsingu og skemmtilegri framsetningu. Það var franski rýmishönnuðurinn Valentin Sanitas sem átti hugmyndina og Unnur Sveinsdóttir vinnur nú að skemmtilegri útfærslu á hellinum. Ráðgert er að hann verði tilbúin þegar Safnahúsið í Neskaupstað opnar í vor. Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað styrkir verkefnið.
Náttúrustofa Austurlands hefur samið við Flugfélag Austurlands um flug vegna hreindýrarannsókna. Þar með er Náttúrustofan fyrsta fyrirtækið til að gera langtímasamning við Flugfélag Austurlands sem stefnir á verulega aukna flugþjónustu og efldar flugsamgöngur á Austurlandi. Við hlökkum til samstarfsins.
Náttúrurannsóknir - Skemmtileg blanda útivistar og úrvinnslu. Okkur vantar öflugan liðsfélaga með brennandi áhuga á náttúrufari. Viðfangsefni okkar eru fjölbreytt og á ólíkum sviðum náttúrurannsókna. Við stundum m.a. rannsóknir og vöktun á hreindýrastofninum, fuglum, gróðri og lífríki í ám og sjó. Störfin eru góð blanda af útivist og úrvinnslu. Verkefni geta verið t.d. verkefnastjórn og þróun nýrra verkefna, rannsóknir á vettvangi, greiningar, kortagerð, gerð vefsjáa og fræðsluefnis, allt í takt við sérsvið umsækjenda. Á litlum vinnustað hjálpast allir að við ólík verkefni.