Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314
  • Fréttir

Vöktun refa á Íslandi: Fleiri hræ frá Austurlandi skila sér til rannsókna.

refurFrá árinu 2019 hefur Náttúrustofa Austurlands, að frumkvæði Fjarðabyggðar, tekið á móti refahræjum frá veiðimönnum úr sveitarfélaginu og sent þau áfram til Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) til rannsókna. Eins og kemur fram á vefsíðu NÍ byggjast rannsóknir á stofnstærð íslenska refastofnsins að miklu leyti á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land sem senda stofnuninni hræ af felldum dýrum til krufninga. Lengi vel hafa hlutfallslega fá hræ skilað sér frá Austurlandi, en frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp hjá Fjarðabyggð hefur sýnum héðan fjölgað verulega. Margs konar upplýsinga er hægt að afla með því að rannsaka hræin m.a. um aldur, frjósemi og líkamsástand.

Skyttur sem skila inn hræjum fá upplýsingar um allar mælingar sem gerðar eru á dýrunum sem þeir senda inn. Einnig fá þær samantekt af niðurstöðum vöktunar frá landinu í heild þar sem niðurstöðurnar eru settar í samhengi við það sem vitað er úr fortíðinni ásamt samanburði við erlendar rannsóknir.

Mikið af dýrunum sem skilað er inn frá Austurlandi eru veidd að vetrarlagi, frá janúar til mars, en langflest dýrin eru veidd á grenjum í júní. Í bréfi sem NÍ sendi veiðimönnum síðla árs 2021 kom m.a. fram að stærð íslenska refastofnsins fram til ársins 2018 hafi verið endurmetinn og sé að lágmarki um 8700 dýr. Í upphafi stofnmælinga árið 1979 hafi áætlaður fjöldi verið innan við 1300 dýr, sem náði hámarki árið 2008 en féll eftir það og var í lágmarki árið 2012. Tók þá refum að fjölga á ný og frá 2012 - 2018 hefur stofninn verið í vexti.
Ljósm: SGÞ

 

 

 

 

Svartfugla rekur á land á Austfjörðum

IMG 9541  2 Í vikunni tóku fréttir að berast af dauðum svartfuglum í fjörum á Austfjörðum. Þriðjudaginn 12 janúar fóru starfsmenn Náttúrustofunnar á stúfana og könnuðu fjörur frá Berufirði að botni Reyðarfjarðar. Alls fundust hræ 237 svartfugla, mest álkur, langvíur og haftyrðlar. Hræin voru flest orðin nokkuð skorpin og velkt en af þeim fuglum sem voru nokkuð heilir mátti meta að flestir, þó ekki allir, fuglanna voru mjög horaðir. Rannsóknir benda til þess að sjófuglar eigi erfitt með að afla sér fæðu þegar veður eru válind og felliatburðir þar sem þúsundir jafnvel tugir þúsunda sjófugla rekur á land eru þekktir1. Veturinn 2001 - 2002 varð einn slíkur fellir hér við land og var þá áætlað að tugir þúsunda svartfugla hafi horfallið í hafinu vestur, norður og austur af Íslandi2. Ekki er þó loku fyrir það skotið að einhverjir fuglanna sem nú rekur á land hafi drepist af öðrum orsökum, t.d. hafi einhverjir særst af völdum veiða en mikil svartfugla-veiði hefur verið á Austfjörðum í haust og í vetur. Eins er möguleiki, þó lítill sé, á að sjúkdómar á borð við fuglaflensu geti valdið slíkum fjölda-dauða og því ráðlegast að fara að öllu með gát og ekki handleika sjórekna fugla. MAST hefur fengið sýni til rannsókna en Náttúrustofan fylgist áfram með ástandinu og óskar frekari fregna ef fólk er á ferli og verður vart við dauða eða deyjandi fugla í fjörum. 

Ljósmyndir: SGÞ



 

IMG 0007  2   IMG 9527  2  

 

IMG 0017  2

1 Manon Clairbaux, Paul Mathewson, Warren Porter, Jérôme Fort, Hallvard Strøm, Børge Moe, Per Fauchald, Sebastien Descamps, Hálfdán H. Helgason, Vegard S. Bråthen, Benjamin Merkel, Tycho Anker-Nilssen, Ingar S. Bringsvor, Olivier Chastel, Signe Christensen-Dalsgaard, Jóhannis Danielsen, Francis Daunt, Nina Dehnhard, Kjell Einar Erikstad, Alexey Ezhov, Maria Gavrilo, Yuri Krasnov, Magdalene Langset, Svein-H. Lorentsen, Mark Newell, Bergur Olsen, Tone K. Reiertsen, Geir Helge Systad, Thorkell L. Thórarinsson, Mark Baran, Tony Diamond, Annette L. Fayet, Michelle G. Fitzsimmons, Morten Frederiksen, Hugh G. Gilchrist, Tim Guilford, Nicholas P. Huffeldt, Mark Jessopp, Kasper L. Johansen, Amy-Lee Kouwenberg, Jannie F. Linnebjerg, Heather L. Major, Laura McFarlane Tranquilla, Mark Mallory, Flemming R. Merkel, William Montevecchi, Anders Mosbech, Aevar Petersen, David Grémillet. 2021. North Atlantic winter cyclones starve seabirds, Current Biology, Volume 31, Issue 17, Pages 3964-3971.e3, ISSN 0960-9822, https://doi.org/10.1016/j.cub.2021.06.059.

2 Ólafur K. Nielsen & Ólafur Einarsson 2004. Svartfugladauðinn mikli veturinn 2001-2002. – Náttúrufr. 72: 117-127.

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir