Um síðastliðna helgi stóð Ferðafélag Fjarðamanna og Náttúrustofa Austurlands fyrir árlegum fuglaskoðunardegi á leirum Reyðarfjarðar og Norðfjarðar. Þrátt fyrir kuldatíð sáust 37 fuglategundir á Reyðarfirði og 24 á Norðfirði.
Árleg fuglatalning og fuglaskoðun verður næstkomandi helgi. Laugardaginn 2. maí, kl. 9 á Reyðarfirði við Andapollinn. Sunnudaginn 3. maí, kl. 9 á Norðfirði við Leiruna. Samvinnuferð Ferðafélags Fjarðamanna og Náttúrustofu Austurlands um leirur Reyðarfjarðar og Norðfjarðar. Sérfræðingar Náttúrustofu stjórna talningu og koma með „fuglaskóp" fyrir þátttakendur. Allir velkomnir.
Jón Guðmundsson hafði samband við náttúrustofuna og sagði frá flotmeisu í garði sínum að Mýrargötu 1 og sendi með myndir máli sínu til stuðnings:
“Þessi skemmtilegi fugl er búinn að vera nokkra daga við heimili mitt og náði ég fyrst myndum af honum í gær. Var fyrst var við hann einn morgun um sex leitið að mér fannst eitthvað stórt vera á hreyfingu við gluggann minn sem var opinn svo ég fór að fylgjast með og sá þennan fugl. Hann labbaði upp steníklæðninguna innan á glugganum og hékk á hvolfi í kverkinni og þegar ég ætlaði að fara og ná í myndavél þá flaug hann. Síðan var hann að sniglast í trjám og moldarbörðum í kring um húsið.”
Þann 18. janúar náðist hreinkýr við Henglavík í Hamarsfirði og fékk hálskraga með staðsetningartæki. Fyrir leiðangrinum fór Skúli Benediktsson. Að sjálfsögðu var hún skýrð Hengla. Til stóð að ná tveimur kúm til viðbótar í Geithella- og Hofsdal en það mun bíða næsta vetrar.
Heimamenn hafa sýnt kúnni og ferðum hennar mikinn áhuga og birtast vikulega upplýsingar um hana á djupivogur.is.
Tilgangur verkefnisins er að afla upplýsinga um landnotkun og ferðir dýra í Djúpavogi og einkum og sér í lagi hvort einstaklingar í Álftafjarðarhjörð heimsæki Snæfellshjörðina.
Ný horn vaxa á hreindýrum hvert ár. Fyrstir eru fullorðnir tarfar en hjá þeim birtast hnýflar í aprílbyrjun. Fróðlegt er að skoða hvort hornavöxturinn er misjafn á milli ára og jafnvel svæða. Á meðfylgjandi myndum eru fullorðnir tarfar þann 12. apríl við Arnheiðarstaði í Fljótsdal komnir með þokkalega hornstubba.